Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Gönguleiðir í Þórsmörk

Þórsmörk

Valahnúkur (458m) er vestan við mynni Langadals, þar sem Skagfjörðsskáli Ferðafélags Íslands stendur. Gangan upp er létt og útsýnið ofan af honum á góðum degi er erfiðisins virði. Hyggist ferðalangar ganga lengra, er upplagt að ganga niður í miðjar hlíðar á slóða, sem liggur í honum sunnanverðum til vesturs og norður yfir Merkurrana. Þaðan liggur leiðin niður á við um Húsadal til baka. Á þeirri leið er upplagt að koma við í Valahnúksbóli, sem var náttstaður gangnamanna vestan í hnúknum neðanverðum. Norðan Merkurranans eru rústir Þuríðarstaða, sem eru taldar vera frá landnámi Þórsmerkur. Sóttarhellir er spölkorn utan við Húsadal. Á leiðinni upp Húsadalinn eru yngri rústir og frá þeim er haldið upp að hellisskútanum Snorraríki og yfir haftið milli Húsadals og Langadals.

Hamraskógar eru vinsæll áfangi á gönguleið. Þeir eru norðan Langadals niður að Þröngá og norðan hennar eru Almenningar, þar sem Steinfinnstaðir eru taldir hafa staðið. Enn þá eru nokkur sýnileg vegummerki þessa landnámsbæjar. Það er upplagt að kíkja á rauðu gjallgígana á Fauskheiði í leiðinni.

Rjúpnafell krefst alllangrar göngu frá Skagfjörðsskála og hægast er að ganga upp Slyppugil að Tindfjallagili, yfir það og upp suðvesturöxlina. Rjúpnafell er allbratt og gróið og tiltölulega auðvelt uppgöngu. Þaðan er útsýnið frábært á björtum degi.

Búðarhamar er skammt norðan Krossár innarlega og greiðast að fylgja ánni. Margir vilja sjá meira og ganga upp Slyppugil og þræða mjóan stíg og stundum tæpan í norðanverðum Tindfjöllum og suður sléttuna austan þeirra. Stangarháls er líka verðugt viðfangsefni og styttri leið niður á aura Krossár til baka.

Stóriendi er ágætisáfangi fyrir þá, sem hafa takmarkaðan tíma. Þá er fyrst haldið upp Slyppugil og háhrygginn að Tindfjöllum og um lítið skarð, niður í vestanverðan Stóraenda. Þaðan er haldið með Krossá til baka. Uppi við skógarmörkin er stór og stæðilegur steinbogi.

Krossárjökull og Tungnakvíslarjökull krefjast talsverðs göngutíma og það borgar sig að kíkja á Teigstungurnar, ef tími er til.

Heiðarhorn, sem vel sést til úr Langadal, freistar margra. Leiðin upp liggur um Strákagil neðanvert og síðan upp hvilftina vestan Heiðarhornsins, þar sem gott er að ganga upp. Þaðan er hægt að halda göngunni áfram um Morinsheiði, Heljarkamb og Bröttufönn að skálunum á Fimmvörðuhálsi og alla leið niður að Skógum. Sumir kjósa að skipta göngunni yfir Fimmvörðuháls og dvelja nótt í skálunum þar.

Réttarfell og Útigönguhöfði. Leiðin upp í skarðið á milli þeirra liggur upp úr Básum og síðan gengið torfærulaust beint upp á hvort fjallið fyrir sig. Einnig er fær leið upp úr Hvannárgili, sem er virkilega skemmtilegt að ganga um.

Hátindar bjóða gott útsýni í góðu veðri. Leiðin upp liggur um Stakkholtið, rétt vestan mynnis Hvannárgilsins.

Gígjökul, Steinsholtsjökul og lónin þar og Stakkholtsgjá er bezt að skoða á leið úr eða í Mörkina, því að allir þessir staðir eru lítið úrleiðis.

Hér er ekki getið um tíma hverrar gönguleiðar fyrir sig en góð þumalputtaregla segir, að menn gangi 4 km á klst. á jafnsléttu og bæti við einni klst. fyrir hverja 450 í hækkun.

Sannir göngumenn skilja aðeins sporin sín eftir og taka aðeins með sér minningarnar!

Rútuáætlun Þórsmörk

Gisting Básar

Gaumlisti Fyrir Göngufólk

Myndasafn

Í grennd

Básar Þórsmörk, Útivist
Eftir stofnun Útivistar var farið að huga að byggingu skála á Þórsmerkursvæðinu. Ákveðið var að byggja á Goðalandi. Þar með yrði einn skáli sunnan Kro…
Gönguleiðin „Laugavegur“
Gönguleið: Laugavegur - Landmannalaugar - Þórsmörk Gönguvegalengd u.þ.b. 55 km. Þórsmörk - Skógar 24-26 km. Laugavegurinn er nafn, sem hefur festst v…
Gönguleiðin Fimmvörðuháls
Gönguleið milli Skóga og Þórsmerkur Leiðin yfir Fimmvörðuháls frá Þórsmörk, Skagfjörðsskála í Langadal, Húsadal og frá skála Útivistar í yfir Fimmvör…
Hálendið, ferðast og fræðast
Þegar talað er um (Hálendið) miðhálendið, er yfirleitt miðað við landsvæði ofan 400 m hæðar yfir sjó. Þetta svæði nær yfir u.þ.b. 76% af flatarmáli la…
Húsadalur
Húsadalur er stærri en Langidalur og skógurinn grózkumeiri. Við rætur Húsadalsklifs eru húsarústir,   sem gætu verið allgamlar að stofni. Jarðabók Árn…
Langidalur
Langidalur er í Merkurrananum norðan Krossár við austanverðan Valahnúk (458m). Þetta grösuga   dalverpi er breiðast fremst, þar sem Ferðafélag Íslands…
Þórsmörk
Þórsmörk er ein af fegurstu náttúruperlum landsins, umlukin fögrum fjöllum, jöklum og jökulám. Hér með sanni segja að sjón sé sögu ríkari, því til að …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )