Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Húsadalur

Húsadalur er stærri en Langidalur og skógurinn grózkumeiri. Við rætur Húsadalsklifs eru húsarústir,  Húsadalur sem gætu verið allgamlar að stofni. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns getur Húsadals og talað er um garðbrot í dalnum. Í upphafi 19. aldar var gerð tilraun til búsetu í dalnum, þegar tveir Landeyingar, Sæmundur Ögmundsson (faðir Tómasar skálds) frá Gaularási og Magnús Árnason frá Hólmum, fluttu í dalinn en ílentust ekki. Þeir voru báðir ungir menn og nýkvæntir og sagnir eru uppi um, að konurnar hafi unað hag sínum illa og verið myrkfælnar. Talið er, að búskapurinn hafi enzt í eitt ár, 1802-03.

Sagt er, að Sæmund hafi dreymt, að hann væri á ferð á svokölluðu Langanesi. Honum þótti, að stór og mikill maður elti sig. Hann þóttist flýja þangað, sem stóðu þrír stórir steinar og príla upp á hæsta steininn í miðjunni. Þá bar manninn þar að og tók steinninn honum í bringu. Hann sagði: „Þú ert farinn að byggja í Húsadal og gerirðu mér baga með því, því þar er stekkjartúnið mitt. Máttu þó vera þar í eitt ár og muntu ekki sæta neinni hegningu frá mér, en hefðirðu byggt á Þuríðarstöðum, hefði það kostað þig lífið. Ef þú ferð ekki eftir að árið er liðið, mun af því illt leiða. En farir þú burtu, muntu græða vel fé og verða heppinn maður.” Þótti Sæmundi hann rétta upp þrjá fingur til sannindamerkis orða sinna og rétti hann þá upp á vinstri hendinni. Þegar Sæmundur vaknaði, hugleiddi hann drauminn og fór í burtu eftir að árið var liðið. Hann varð ríkur og rættist svo vel það, sem draummaðurinn hafði spáð.

Engar fréttir fara af fundum gamalla minja í dalnum, enda hefur fremur bætzt við jarðveg þar í aldanna rás andstætt því, sem hefur gerzt á Þuríðarstöðum og Steinfinnsstöðum, þar sem land hefur blásið upp. Á sléttum flötum Húsadals var venja að halda rækilega upp á frídag verzlunarmanna og við það lét umhverfið talsvert á sjá.

„The Volcano Huts” rekur mjög góðri aðstöðu fyrir ferðamenn fyrir mynni Húsadals. Daglegar ferðir í Húsadal í Þórsmörk hófust árið 1981 og síðan hefur þeirri áætlun verið haldið í þrjá mánuði hvert sumar. Auk áætlunarinnar er aragrúi sérhópa fluttur þangað og brátt kom í ljós, að ekki var nóg að koma fólkinu inn eftir, heldur varð að koma upp aðstöðu þar. Þá flutti Austurleið hf. inn bjálkahús frá Finnlandi og það var sett saman á staðnum og skírt Merkursel. Ekki dugði það og síðan hefur uppbyggingin verið sleitulaus. Nú er pláss fyrir a.m.k. 100 manns í gistingu og önnur aðstaða, ræktað tjaldstæði, matsalur, snyrtingar, böð o.fl. til fyrirmyndar.

Fremst og sunnantil í dalnum er klettur, sem margir kalla Össu og nokkru ofar er Sönghellir. Þá er annar smáskúti, Snorraríki, innst í dalnum við stíginn yfir í Langadal. Þeir, sem vilja geta fikrað sig þangað upp eftir grunnum þrepum og handarhöldum, sem voru höggvin í gergið.

Uppblásturssvæðin uppi á hryggjunum að norðanverðu heita Húsadals- og Langadalsfoldir. Undanfarna áratugi hefur gífurlegt björgunarstarf verið unnið í sjálfboðavinnu við ræktun þeirra og árangur hefur verið góður. Neðan þeirra tekur við stærsta skógarspildan í Mörkinni, Hamraskógar, sem ná að Þröngá en norðan hennar tekur við uppblásið land Almenninganna. Leggi fólk af stað í göngu um „Laugaveginn” eða endi hana í Langadal, liggur leiðin um á og Foldirnar, en upp eða niður gömlu jeppaslóðina úr eða í Húsadal.

Myndasafn

Í grennd

Básar Þórsmörk, Útivist
Eftir stofnun Útivistar var farið að huga að byggingu skála á Þórsmerkursvæðinu. Ákveðið var að byggja á Goðalandi. Þar með yrði einn skáli sunnan Kro…
Eldfjallaskálarnir í Húsadal í Þórsmörk
Volcano Huts í Húsadal Þórsmörk Húsadalur er staðsettur í náttúruperlunni Þórsmörk sem er ævintýraheimur göngufólks og  náttúruunnenda á öllum aldri…
Ferðafélag Íslands Ferðast og Fræðast
Ferðafélag Íslands grasrótin í ferðaþjónustu á Íslandi !!! Ferðafélag Íslands er áhugamannafélag um níu þúsund félagsmanna og hefur frá stofnun, ár…
Gaumlisti Fyrir Göngufólk
Fjöldi ferðamanna ferðast fótgangandi. Sumir rölta milli hótela og sundstaða, aðrir verzla á Laugaveginum, en æ fleiri leggja land undir fót og ganga …
Gönguleiðir í Þórsmörk
Valahnúkur (458m) er vestan við mynni Langadals, þar sem Skagfjörðsskáli Ferðafélags Íslands stendur. Gangan upp er létt og útsýnið ofan af honum á gó…
Hálendið, ferðast og fræðast
Þegar talað er um (Hálendið) miðhálendið, er yfirleitt miðað við landsvæði ofan 400 m hæðar yfir sjó. Þetta svæði nær yfir u.þ.b. 76% af flatarmáli la…
Langidalur
Langidalur er í Merkurrananum norðan Krossár við austanverðan Valahnúk (458m). Þetta grösuga   dalverpi er breiðast fremst, þar sem Ferðafélag Íslands…
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…
Þórsmörk
Þórsmörk er ein af fegurstu náttúruperlum landsins, umlukin fögrum fjöllum, jöklum og jökulám. Hér með sanni segja að sjón sé sögu ríkari, því til að …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )