Gönguleiðin milli Hvítárnes og Hveravalla
Gönguvegalengd 42-44 km. Í Hvítárnesi er elsti skáli FÍ frá 1930. Hann hýsir 30 manns.
Fyrsta dagleiðin liggur til Þverbrekknamúla, u.þ.b. 12 km með 100 m lóðréttri hækkun. Göngutími 4-5 klst.
Önnur dagleið endar í Þjófadölum, 14-15 km með 100 m lóðréttri hækkun.
Þriðja dagleið liggur til Hveravalla, 12 km með 100 m lóðréttri hækkun yfir Þröskuld. Göngutíminn er 5-6 klst.
Þegar komið er á Hveravelli sem er náttúruperla á miðju vesturhálendi Íslands milli Langjökuls og Hofsjökuls, má finna margar skemmtilegar gönguleiðir í nágrenninu. Á Hveravöllum er eitt af fegurri hverasvæðum jarðar með blásandi gufuhverum, bullandi leirhverum og formfögrum hverum með himinbláu sjóðheitu hveravatni. Einstakt er að skoða sig þar um, hvert heldur er vetur eða sumar.
Gönguleiðir sem vert er að skoða eru um Kjalhraun, Rjúpnafell, Kjalfell og Hrútfell, og jafnvel á Langjökul, fyrir þá sem hafa áhuga á gönguferðm á jöklum.
Á Hveravöllum er náttúruleg baðlaug sem tilvalið er að skella sér í eftir góða gönguferð um nágrennið.
Sannir göngumenn skilja aðeins sporin sín eftir og taka aðeins með sér minningarnar!!!
Skálar á gönguleiðinni Hvítárnes- Hveravellir:
Hvítárnesskáli
Þverbrekknamúlaskáli
Þjófadalaskáli