Gaulverjabær er fyrrum prestsetur, kirkjustaður og bæjarhverfi í Flóa. Katólskar kirkjur staðarins voru helgaðar heilagri guðsmóður og heilögum Þorláki. Útkirkjur voru á Stokkseyri og í Villingaholti. Sóknin var lögð niður árið 1907 og sameinuð Stokkseyrarprestakalli og Villingaholtssókn til Hraungerðis. Kirkjan, sem nú stendur, var byggð árið 1909.
Þarna er hverfi nokkurra bæja og félagsheimilið Félagslundur (1949) á svokallaðri Gaulverjabæjartorfu. Neðan túns er lítið stöðuvatn, þar sem vex tjarnarblaðka (Polygonum amphibium), sem hefur ekki fundizt annars staðar hérlendis en við Hofgarða á Snæfellsnesi. Landnámsmaðurinn, sem settist að í Gaulverjabæ, var Loftur Ormsson frá Gaulum í Noregi. Árni Helgason, Skálholtsbiskup, og Haukur Erlendsson, lögmaður, voru forgöngumenn fyrir stofnun lærðra manna spítala í Gaulverjabæ í kringum aldamótin 1300.