Flatey liggur u.þ.b. 2½ km undan Flateyjardal. Hún er u.þ.b. 2½ km löng, 1 km breið og 2,62 km2. Hæst rís hún 22 m úr sjó en talið er, að hún hafi risið um 1 m á 20. öldinni. Það er mjög líklegt, því hún er á mjög virku jarðskjálftabelti. Þessu belti er gjarnan jafnað við Suðurlandsbeltið (milli Hveragerðis og Heklu). Flatey er mjög gróin og vel fallin til ræktunar. Strandlengjan er lág og víða eru lón innan mararkamba. Eyjan var byggð frá 12. öld til 1968, þegar einangrunin hrakti síðustu íbúana brott. Alls urðu íbúarnir 120 árið 1943. Þeir stunduðu aðallega fiskveiðar og kvikfjárrækt. Meðal hlunninda voru rekaviður, fuglavarp og selur. Kaupfélag og barnaskóli voru starfrækt frá upphafi 20. aldar. Börn úr Flateyjardal sóttu þennan skóla og íbúar dalsins verzluðu í kaupfélaginu.
Fyrrum var útkirkja frá Þönglabakka í Flatey og katólsku kirkjurnar voru helgaðar Maríu guðsmóður. Flateyjarkirkja var lögð niður 1884 og flutt til Brettingsstaða í Flateyjardal. Þangað sóttu eyjamenn kirkju þar til byggð í dalnum lagðist af 1953. Þá var kirkjan flutt út í Flatey og endurvígð 1960.
Syðst á eyjunni er Krosshúsabjarg. Fyrsti vitinn var reistur þar árið 1913 (endurbyggður 1963). Hnit hans eru 66 9,7889 17 50,4471. Ljóseinkenni FI(3) W 15s. Sjónarlengd 10 sjómílur. Ljóshæð yfir sjávarmáli 25 m. Hæð vitans er 9,5 m. Tegund hans: Ljósviti – sólarorka. Umsjón: Siglingastofnun Íslands. Hönnuður Skarphéðinn Jóhannsson, arkitekit.
Úr Vitar á Íslandi:
„Fyrsti viti sem reistur var í Flatey á Skjálfanda var 5 m há járngrind með 3,5 m háu norsku ljóshúsi úr járnsteypu. Vitinn var sömu gerðar og Skagatáarviti sem einnig var reistur árið 1913.
Árið 1963 var byggður steinsteyptur viti í eyjunni og hann útbúinn með sama ljóshúsi og ljóstækum og gamli vitinn. Voru gasljóstækin notuð til ársins 1992 en þá var vitinn rafvæddur með sólarorku. Radarsvari var settur á vitann árið 1989.“
Nokkur myndarleg hús, sem er haldið við, standa enn þá í eyjunni og margir sækja þangað á sumrin sér til afþreyingar og til að nýta hlunnindi og sækja sjó. Theódór Friðriksson (1876-1948), rithöfundur, fæddist í Flatey. Mörg ritverk liggja eftir hann, þ.á.m. ævisaga hans „Í verum”, sem kom út í tveimur bindum. Hún er góð heimild um lífsskilyrði í þessum landshluta um og upp úr aldamótunum 1900.