Eskifjörður varð löggiltur verzlunarstaður árið 1786 og hefur verið það samfleytt frá 1798, þegar danska fyrirtækið Örum & Wulff hófu verzlun hérlendis. Kaupmennirnir létu reisa verslunarhúsið Gömlubúð árið 1816 og stendur það enn og hýsir nú Sjóminjasafn Austurlands. Sýslumannsembætti hefur verið á Eskifirði samfellt frá árinu 1853. Margir áhugaverðir staðir eru við Reyðarfjörð og má þar nefna Helgustaðanámur, beztu silfurbergsnáma landsins í nær fjórar aldir. Silfurberg var sótt í námurnar allt fram á fyrri hluta 20. aldar. Einn veggja frystihússins á Eskifirði er skreyttur málverki eftir katalónsk-íslenzka listamanninn Baltasar. Hólmatindur (985m) er eitt af tignarlegustu fjöllum við Reyðarfjörð en framundan honum gengur Hólmaháls fram á Hólmanes, sem er fólkvangur. Hólmatindur skyggir á sól lengi vetrar. Mikil útgerð og fiskvinnsla er uppistaða atvinnulífs og hafa fyrirtæki í þeim greinum verið í fararbroddi á mörgum sviðum í áratugi.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 700 km um Suðurland.