Brúarhlöð eru þröngt og grunnt gljúfur, sem Hvítá rennur um sunnan Tungufells í Hrunamannahreppi. Vegna þrengslanna er áin mjög djúp, a.m.k. 10 m undir brúnni. Jarðefnið, sem áin hefur grafið sig niður í, heitir þursaberg (breccia). Það er móberg, blandað fremur litlum, köntuðum blágrýtissteinum. Á einum stað stendur sérkennilegur, stakur klettur úti í ánni.
Árin 1929 og 1930 ruddi áin fyrstu tveimur brúnum burt. Núverandi brú var smíðuð 1959. Talið er að dýpt árinnar í flóðunum hafi verið nálægt 21 metra en það er líklega mesta dýpi nokkurs straumvatns hérlendis. Umhverfið er mjög hlýlegt og nokkuð vel gróið og vel þess virði að doka þar við um stund.
Í ágúst 2002 steyptist fólksbíll í ána við brúna og hvarf í dýpið. Einn ungur maður drukknaði en bílstjórinn komst lífs af og gerði vart við sig að Gígjarhóli. Leit að bílnum bar lítinn árangur fyrst í stað en hann fannst eftir 20. ágúst.
Hvað er betra enn að Ferðast og Fræðast !!!