Áin rennur úr Hvalvatni og fellur til sjávar í Hvalfjarðarbotni. Áin er frægari fyrir þjóðsögur henni , svo og hæsta fossi landsins, Glym, heldur en fyrir veiðiskapinn. Þjóðsögurnar eru m.a. af illhvelinu Rauðhöfða sem var lokkaður af göldróttu gamalmenni úr sjó, upp ána, upp Glym og loks í Hvalvatn þar sem sá gamli hélt yfir honum særingarþulu, sem kom í veg fyrir að hvalurinn ætti afturgengt. Nöfn á borð við Glymur, Skjálfandahæðir, Hvalfjörður, Hvalfell og Hvalvatn bera þessum atburði vitni, en hvalurinn hafði það til saka unnið að hafa grandað tveimur vöskum sonum gamla mannsins, er þeir réru til fiskjar. Forsagan er lengri og verður ekki rakin hér. Botnsá er í einkaeign og lítt stunduð af veiðimönnum.
Skýrslur liggja sjaldan fyrir vegna þessa, en talið er að um 100 laxar veiðist þar yfirsumarið og leyft sé að veiða á tvær stangir í einu. Fyrir 5-10 árum, er alls konar eldisfiskur var að sleppa úr kvíum á Suðvesturhorninu, var Botnsá sérstaklega vinsæll samkomustaður. Eitt sumarið veiddust t.d. í ánni, lax, sjóbirtingur, urriði, bleikja, regnbogi, kvíalax, hafbeitarlax og bleiklax. Óttuðust menn alvarlega stonfablöndun, en sem betur fer hefur ástandið batnað.