Úti af Kollumúla, milli Vopnafjarðar og Héraðsflóa, er lítil 9 ha eyja, Bjarnarey. Vitinn þar var reistur 1917 og endurnýjaður 1946. Eyjan er algróin, þar er fuglalíf fjörugt og selalátur og veiðar voru stundaðar til skamms tíma.
Búið var í eyjunni með hléum og við manntalið 1703 voru skráðir tveir ábúendur þar auk 10 manns í heimili. Jón Guðmundsson lærði bjó þar í útlegð 1632-35 til að forðast málssókn vegna galdra. Fisk- og hákarlaveiðar voru stundaðar frá Bjarnarey.
Veðurathugunarstöð er á eyjunni.