Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Bessastaðir – Álftanes

Bessastaðir á Álftanesi

Bessastaðir – Sveitafélagið Álftanes

Sveitarfélagið Álftanes nær yfir Álftanesi og mörk hans eru þar sem nesið er mjóst á milli Skógtjarnar og Lambhúsatjarnar. Byggð hefur þanizt út á nesinu sl. 30 ár. Nesið er gósenland fyrir fuglaskoðara.

Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar, þá í eigu Snorra Sturlusonar. Að honum látnum sló Noregskonungur eign sinni á staðinn, sem varð fyrsta jörðin á Íslandi í konungseign. Þar varð brátt höfuðsetur æðstu valdamanna konungs hér á landi og var svo til loka 18. aldar.

Frá 1868 voru Bessastaðir í eigu eins af kunnustu og mikilhæfustu skáldum þess tíma, Gríms Thomsens (1820-1896), en hann fæddist þar. Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (1826-1907) fæddist á Bessastöðum. Hann var eitt af sérkennilegustu skáldum og rithöfundum okkar á s.hl. 19. aldar. Eftir lát Gríms Tomsens voru B. lengst af í eigu einstaklinga unz Sigurður Jónsson (1896-1965), forstjóri í Rvík. gaf íslenzka ríkinu staðinn til búsetu fyrir ríkisstjóra vorið 1941. Síðan hafa forsetar landsins haft aðsetur þar.

Kirkjur hafa staðið á Bessastöðum síðan árið 1000. Elztu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Það   tók u.þ.b. 20 ár að byggja núverandi kirkju og hún var vígð 1796. Hún er meðal elztu steinbygginga landsins. Byggingu turnsins lauk ekki fyrr en árið 1823 eftir að hætt var við að hafa þar útsýnisaðstöðu. Kirkjan er 23m löng, 11m breið og lofthæð 4,5m. Á efri hæð er rými eftir nærri endilangri kirkjunni. Fyrsta kirkjan var helguð heilagri Maríu og heilögum Nikulási. Um miðja 14. öld átti kirkjan þriðjung Bessastaðalands.

Þegar erlendir landstjórar settust þar að, áttu bændur kirkjuna, sló konungsvaldið eign sinni á hana. Afleiðingar þess voru síður en svo ásættanlegar og árið 1616 var hún komin í slíka niðurníðslu, að það varð að endurbyggja hana. Allar aðrar kirkjur landsins voru skattlagðar til að afla fjár til verksins. Nýja kirkjan var mjög falleg bygging en það hafði láðst að setja trébita í hana, svo að hún fauk í stormi tveimum árum síðar. Viðirnir voru notaðir til byggingar nýrrar kirkju með torfveggjum til að hún stæði af sér fárviðri.

Árið 1773 ákvað Kristján 7., Danakonungur, að reisa skyldi steinkirkju á Bessastöðum, þar sem hin gamla var úr sér gengin. Það er ekki að fullu ljóst hver hannaði hana, en líklega var það G.D. Anthon. Steinveggirnir voru byggðir utan um gömlu trékirkjuna, sem var síðan rifin. Veggirnir eru rúmlega 1m þykkir, hlaðnir úr grjóti úr Gálgahrauni, sem sést austan kirkjunnar. Steinarnir voru fluttir á flatbytnum eftir skurði að Lambhúsatjörn og yfir hana að byggingarstaðnum. Þetta var seinlegur byggingarmáti, svo að kirkjan var ekki vígð fyrr en árið 1796. Eitt fyrstu embættisverka í kirkjunni var gifting ungs pars frá Reykjavík. Athöfnin fór fram í júlí 1796 að viðstöddum öllum fremstu mönnum þjóðarinnar.

Skömmu eftir aldamótin 1800 þarfnaðist kirkjan þegar viðhalds og þá var ákveðið að ljúka byggingu hennar, því að turninn vantaði. Því verki var lokið árið 1823. Árið 1841 eignaðist Bessastaðaskóli Bessastaði. Skólabókasafnið var á efri hæð kirkjunnar allan tímann, sem skólinn starfaði þar. Kirkjan varð aftur að bændakirkju árið 1868.

Fyrsti bóndinn, sem keypti Bessastaði 1768, var Grímur Thomsen. Kirkjan þjónaði þessu hlutverki til 1941, þegar Sigurður Jónsson gaf þjóðinni staðinn með því skilyrði, að þar yrði aðsetur þjóðhöfðingja landsins. Við þessar breyttu aðstæður var innviðum kirkjunni líka breytt talsvert á árunum 1945-47 og þannig sjáum við hana nú á dögum. Trégólf kom í stað flísa og predikunarstóllinn frá því um 1700 vék fyrir nýjum.

Steint gler var sett í glugga kirkjunnar árið 1956 í tilefni sextugsafmælis Ásgeirs Ásgeirssonar, annars forseta lýðveldisins, sem átti reyndar þetta merkisafmæli tveim árum áður. Gluggarnir eru 8 talsins og listamennirnir voru Finnur Jónsson og Guðmundur Einarsson frá Miðdal.

Fyrsti glugginn til vinstri sýnir komu papa (Finnur)
Fyrsti glugginn til hægri sýnir kristintökuna árið 1000 (Finnur).
Annar glugginn til vinstri sýnir Guðbrand Þorláksson biskup (Guðm.).
Annar glugginn til hægri sýnir Jón Arason biskup (Guðm.).
Þriðji glugginn til vinstri sýnir séra Hallgrím Pétursson sálmaskáld (Guðm.).
Þriðji glugginn til hægri sýnir Jón Vídalín biskup (Finnur).
Fjórði glugginn til vinstri sýnir fjallræðuna (Guðm.).
Fjórði glugginn til hægri sýnir heilaga guðsmóður (Finnur).

Á grátunum, sem eru úr smíðajárni, eru myndir postulanna. Þessar myndir minna líka á verndarvættir landsins, drekann, fálkann, nautið og risann, sem er að finna í skjaldarmerki landsins. Guðmundur og Finnur gerðu þær líka. Stóri, útskorni krossinn á norðurveggnum (vinstri) er eftir Ríkarð Jónsson. Hann var áður altaristafla kirkjunnar, en var fyrst færður þaðan á vesturvegginn. Altaristaflan, sem kom í staðinn, kom af Þjóðminjasafninu 1921. Hún er máluð mynd af Kristi að lækna sjúka eftir Mugg (Guðmund Thorsteinsson).Á altarinu eru m.a. tveir nýlegir kertastjakar og tveir stórir koparstjakar frá 1834, sem voru gefnir til að prýða gröf varalandstjórans Niels Fuhrmanns.

Altarisdúkurinn er úr hör, sem var ræktaður fyrir tillögu Georgíu, eiginkonu fyrsta forsetans, Sveins Björnssonar, á Bessastöðum árið 1950. Unnur Ólafsdóttir óf hann, en Sigrún Jónsdóttir bætti við hann. Árið 1960 var grafsteinn Páls Stígssonar landstjóra (†1566) múraðir inn í suðurvegg kirkjunnar. Áður hafði hann verið í norðurveggnum inni í kórnum, en fram að því hafði hann verið yfir gröf hans undir gólfi fyrri kirkju. Grafsteinn Magnúss Gíslasonar varalandstjóra (†1766) er í norðurveggnum í kórnum. Minningarskildir um látna forseta og eiginkonur þeirra eru á veggnum beggja vegna altaristöflunnar. Bak við skjöld Ásgeirs og Dóru eru duftker þeirra. Gagnger viðgerð á kirkjunni fór fram árið 1998.

Grímur Thomsen er talinn hafa skipt á jöfnu á Belgsholti og Bessastöðum á Álftanesi, þegar hann fluttist til landsins.

Eins og sjá hér að neðan, tengdar færslur er nat.is að reyna að halda jafnframt um gamlar og nýjar heimildir:

Myndasafn

Í grennd

Belgsholt í Mela og Leirársveit
Belgsholt er í Mela- og Leirársveit. Þar mótar fyrir garðhleðslum umhverfis líklegan kirkjugarð, því   þarna var hálfkirkja, og dómhring. Hvort tveggj…
Bessastaðahreppur
Bessastaðahreppur er á Álftanesi og mörk hans eru þar sem nesið er mjóst á milli Skógtjarnar og   Lambhúsatjarnar. Byggð hefur þanizt út á nesinu sl. …
Höfuðborgarsvæðið, ferðast og fræðast
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá botni Hvalfjarðar og vestan Þingvallavatns til sjávar við rætur Reykjaness. Þéttbýlis- og merkisstaða innan svæði…
Lambhús
Lambhús var hjáleiga frá Bessastöðum á Álftanesi. Fyrstu opinberu stjörnuathuganirnar hérlendis voru  þar. Árið 1772 var Eyjólfur  Johnsonius, stjarn…
Melar í Leirár og Melasveit
Melar í Leirár- og Melasveit voru fyrrum bústaður Melamanna, sem voru komnir af Reykhyltingum. Til þeirra er rakin Melabók Landnámu og af þeim féll…
Sögustaðir Höfuðborgarsvæðinu
Ýmsir staðir tengdir sögu svæðisins Akurey Alþingishúsið Bessastaðakirkja Bessastaðir – Álftanes …
Þingeyrarkirkja
Þingeyrarkirkja er í Þingeyrarprestakalli í Ísafjarðarprófastsdæmi. Prestssetur hefur verið á Þingeyri frá    1915 og útkirkja á Hrauni. Núverandi ste…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )