Sandsteinshöfðinn Hellnaskagi er hluti syðsta býlis landsins, Garða. Hann gengur vestur í Dyrhólaós og uppi á honum eru rústir bæjarins Hella, sem fór í eyði 1909. Auk Baðstofuhellis eru bæði manngerðir og náttúrulegir hellar í höfðanum, s.s. Grænkelluhellir, Hrossatröð og Heyhellir, sem er fallinn.
Baðstofuhellir er kunnur fyrir vetrarpartsdvöl Jóns Steingrímssonar þar árið 1755. Bóndinn úthlutaði honum vist í hellinum, sem var þá líklega tengdur bænum um göng hægra megin dyra. Jón stækkaði hellinn og bjó þar með bróður sínum í bezta yfirlæti. Á meðan á dvölinni stóð var Jón að læra þýzku, sem kveikti í honum áhuga á eldgosum og sögu þeirra. Þegar bræðurnir voru að koma sér fyrir í hellinum, hófst mikið Kötlugos. Jón Sigurðsson, sýslumaður, skrifaði skýrslu um gosið, sem Jón Steingrímsson byggði mun gleggri greinargerð á. Hið síðara eldrit í kjölfar Skaftárelda 1783-84 var þó mun greinarbetra og verður vafalaust handagagn jarðvísindamanna á meðan jörðin byggist.
Baðstofuhellir er u.þ.b. 6 m langur, tæplega 3 m breiður og 2 m á hæð. Bogadregna skotið innst í honum er líklega verk Jóns. Hleðsla er fyrir munna hellisins og viðarþil með dyrum og gluggum. Síðast var hellirinn nýttur sem fjárhús.
Heimild: Byggt á minningum Eyjólfs Guðmundssonar (Minningar úr Mýrdal, bls. 64).
Mynd: Reynisdrangar