Austurdalur í Skagafirði er næstum 50 km langur. Hann nær frá ármótum Austari- og Vestari Jökulsáa, sem Héraðsvötn myndast. Austurdalur er þröngur og djúpur með hamrabeltum beggja vegna (1000m). Gróður nær upp eftir hlíðum og leifar skóga finnast í Jökulsárgili, innan Merkigils og í Fögruhlíð, lítið eitt sunnan miðs dals. Austari-Jökulsá fellur víðast um mikil gljúfur um dalinn. Hún verður til úr mörgum kvíslum úr Hofsjökli. Hin lengsta þeirra, Jökulkvísl / Hnjúkskvísl, kemur undan Klakksjökli. Áin er vatnsmikil og erfið yfirferðar. Hún er þó oftast fær fjallabílum undir Illviðrahnjúkum. Árið 1970 var hún brúuð vestan Laugafells með hluta brúarinnar yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Einnig er brú yfir ána hjá Merkigili. Fyrrum var Austurdalur allþéttbyggður, 20-30 bæir.
Merkigil á sér merkilega sögu, einkum í tengslum við kjarnakonuna Móníku Helgadóttur. Guðmundur Hagalín skrifaði heila bók um hana: „Konan í dalnum og dæturnar sjö”.
Monika S. Helgadóttir (1901-1988) var fædd á Ánastöðum í Svartárdal, dóttir Helga Björnssonar og Margrétar Sigurðardóttur. Hún settist að á Merkigili í Austurdal í Skagafirði ásamt manni sínum Jóhannesi Bjarnasyni frá Þorsteinsstöðum árið 1932.
Nýibær er eyðibýli, u.þ.b. 7 km sunnan Ábæjar. Þarna bjó Hjálmar Jónsson, skáld, á árunum 1824-1829. Hann hraktist þaðan fyrir illvilja nágranna sinna og settist þá að á Bólu. Bærinn var í byggð til 1880, en síðan hefur land hans spillzt af vatni og vindum.
Ábær er eyðibýli og fyrrum kirkjustaður austan Austari-Jökulsár. Bærinn fór í eyði árið 1941. Landnámsmaðurinn í Austurdal, Önundur víss, er talinn hafa búið að Ábæ. Draugurinn Ábæjarskotta er kunn úr íslenzkum þjóðsögum. Hún gerði mörgum skráveifur, aðallega í innanverðum Skagafirði. Hún er sögð hafa drepið búsmala, hrætt fólk og jafnvel orðið einhverjum að bana. Henni var spyrt saman við Þorgeirsbola og látin ferðast á húð hans.