Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Akureyjar Skarðsströnd

Akureyjar

Akureyjar eru safn 30 eyja og grösugra hólma, sem töldust einna beztar til búsetu á Breiðafirði. breidafjordareyjarHeimaeyjan er í miðjum, þéttum eyjaklasanum, þannig að lendingarnar njóta skjóls og stutt er til hinna eyjanna. Um fjöru er gengt milli margra þeirra. Stutt er til lands í báðar áttir. Flestar eyjanna eru grasgefnar og æðarvarp og hlunnindi af öðrum fuglategunum næg í hólmunum.

Bæjarey er stærst Akureyja, norðantil í miðjum eyjaklasanum. Akurey er föst við hana austanverða og þar sjást merki um akuryrkju til forna. Suðaustan Slögusunds er Björgólfsey. Sundið er nefnt eftir drang við hana, sem heitir Slaga. Helgaey og Hrappsey, sem er næst landi, eru lengra í suðaustur. Vaktarey er sunnan heimaeyjar. Vestan hennar er Vakteyjarhólmi og Hafnarhólmi og í suðvestri er eyjan Höfn. Sunnan hennar er Sultarhólmi, þar sem fé flæddi stundum, og suðaustan í honum er skerið Þömb. Lyngey er norðvestan Hafnar og vestan hennar er kletturinn Kolagröf. Bæjareyjarhólmi er vestan Bæjareyjar og hár og grasi vaxinn klettur, Stöng. Vesturey er vestar, norðan Lyngeyjar. Skjaldarey er norðvestan Bæjareyjar og þar vesturaf er Matarbolli, hólmi, sem er vaxinn melgresi, sem má ekki slá. Suðvestan hans og norðan Vestureyjar er Klofrífur, sem dregur nafn af þröngri gjá, sem klofa má yfir. Arnórseyjar eru norðan Bæjareyjar og Akureyjar. Þær skiptast í Seley, Miðey og Suðurey.

Akureyja er getið á nokkrum stöðum í Sturlungu. Ekki er ljóst af þeim lýsingum, hvort eyjarnar hafi verið byggðar. Þær voru engu að síður gott búsílag fyrir Staðarhól. Byggð hefur ekki verið órofin og líklega hefur sumum eigendum þeirra þótt hagkvæmara að nýta þær frá landi. Árið 1704 voru 17 manns skráðir í Akureyjum með 11 nautgripi og 33 kindur. Síðar voru þær í eyði fram yfir 1800 og nytjaðar frá Búðardal á Skarðsströnd. Eftir það settust afkomendur Magnúsar Ketilssonar, sýslumanns, þar að og gerðu Akureyjar að stórbýli (10-20 manns). Séra Friðrik Eggerz, dóttursonur Magnúsar, bjó þar á árunum 1851-79. Um tíma var þar vinnukona, Júlíana Jónsdóttir, sem kenndi sig við Akureyjar. Ljóðabókin Stúlka, eftir hana, kom út 1876. Þetta var fyrsta ljóðabók kvenskálds, sem var gefin út hérlendis.

Vatnsból eyjarinnar var innan lendingarinnar, sem snéri í átt að Reykhólum. Það þraut oft áður en séra Friðrik lét höggva í það eins metra djúpa holu. Þar er nú lítið hús með dælu. Hann reisti lítinn bæ, hlöðu og fjárhús fyrir 50 kindur í Lyngey, þar sem vinnuhjú voru á vetrum til hirðingar. Séra Friðrik hélt 150-200 fjár í eyjunum um sína daga. Hann lét hlynnað að æðarvarpinu, sem jókst um hans daga. Pétur Friðriksson, sem tók við af föður sínum í rúman áratug, stofaði Æðarrætarfélagið á Breiðafirði, sem var hið fyrsta sinnar tegundar á landinu. Það lognaðist út af og Pétur fluttist til Reykjavíkur 1890. Tómas Jónsson frá Elvogum bjó síðastur á eyjunum 1945-54. Síðan hafa þær verið nytjaðar mismikið.

Huldufólk í Höfn kveikti stundum eld í dimmvirði til að leiðbeina bátum á leið frá landi. Þess vegna létu sumir bændur á Akureyjum hjá líða að slá eyjuna. Þá var talið, að huldufólk byggi í hól á Bæjareyjunni.

Myndasafn

Í grennd

Akureyjar í Helgafellssveit
Akureyjar Helgafellssveit Þessar Akureyjar eru í Helgafellssveit í Snæfellsnessýslu en eru samnefndar eyjaklasa undan Skarðsströnd, sem er mun þekkta…
Breiðafjarðareyjar, Þúsund Eyja Flói.
Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins (mynnið 70 km breitt). Innan til, þar sem hann er grynnri, eru óteljandi eyjar (u.þ.b. 2700 með einhverju…
Búðardalur
Búðardalur er kauptún við innanverðan Hvammsfjörð. Þar er miðstöð þjónustu við landbúnað í Dalasýslu og víðar. Fyrsta íbúðarhúsið var reist í Búðardal…
Ferðavísir, ferðast og fræðast
Skipulag ferðar Ein leið við að skipuleggja ferðalag um landið okkar er að velja þann landshluta sem fyrst skal heimsækja. Þaðan er síðan hægt að sko…
Öxney
Öxney er önnur stærsta eyjan undan Skógarströnd og henni fylgja nálægt hundrað eyar, hólmar og sker. Svo skammt er á milli Öxneyjar og Brokeyjar í my…
Skarðsströnd í Dalasýslu
Skarðsströnd er sveit í Dalasýslu, sem er á milli Hvammsfjarðar og Gilsfjarðar. Mörkin milli Fellsstrandar og Skarðsstrandar eru um Klofning, klettara…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Akrafjall Akrakirkja Akranes Akraneskirkja …
Stykkishólmur
Stykkishólmur er oft kallaður höfuðstaður Snæfellsness. Bærinn stendur á innanverðu Snæfellsnesi, yzt á Þórsnesi. Byggðin stendur á klettaborgum með f…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )