Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Möðruvallakirkja Möðruvallaklaustur

Möðruvellir í Hörgárdal

Möðruvallakirkja er í Möðruvallaprestakalli í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Möðruvellir eru bær, prestssetur, kirkjustaður og fyrrum klaustur í Hörgárdal.

Möðruvallaklaustur var stofnað árið 1296 og þar sátu munkar af Ágústínusarreglu. Heimildir geta þess, að þar hafi smám saman orðið til merkasta bókasafn landsins á miðöldum. Klaustrið brann árið 1316 í tengslum við drykkjuveizlu bræðranna. Oft mun hafa verið sukksamt í klaustrinu og deilur voru uppi milli munkanna og Lárentíusar Kálfssonar, Hólabiskups. Þær gengu svo langt, að biskup lét taka klausturlyklana af munkunum og þrír þeirra voru settir í járn fyrir sakir, sem voru bornar á þá.

Útkirkjur prestakallsins eru í Glæsibæ, á Bakka og Bægisá. Standklædd timburkirkjan, sem nú stendur, var byggð á árunum 1865-67. Fyrri kirkja brann í marz 1865.

Núverandi kirkja er meðal veglegustu og vönduðustu kirkjum sinnar gerðar á landinu og hefur verið varðveitt í nánast upphaflegri mynd. Þorsteinn Danílesson á Skipalóni var kirkjusmiður og nafn hans og ártalið 1867er yfir dyrum kirkjunnar. Allstórt loft með hliðarstúkum er í henni. Á níutíu ára afmæli kirkjunnar var reist skrúðhús í suðurhorni í kór og þegar hún varð 110 ára komu klæddar setur í kirkjubekki og teppi í kór og ganggólf. Hún tekur u.þ.b. 250 manns í sæti. Loftið í kirkjunni er alsett stjörnum úr gipsi, líklega nálægt 2000 að tölu. Gluggar kirkjunnar, sex á hvorri hlið, eru stílhreinir og vekja athygli. Einn er yfir dyrum og allir eru þeir úr járni og í gotneskum stíl.

Allir munir gömlu kirkjunnar brunnu með henni nema altaristaflan, sem Arngrímur Gíslason, málari frá Skörðum í S-Þingeyjarsýslu, bjargaði og málaði eftir henni nokkrar töflur, s.s. í Stærra-Árskógskirkju. Frummyndin er glötuð, en til er mynd af kirkjubrunanum eftir Arngrím. Flestir gripir núverandi kirkju eru því á svipuðum aldri og hún sjálf og í sama stíl. Talið er að skírnarsárinn sé verk og gjöf kirkjusmiðsins. Í sánum er eirhúðuð skírnarskál. E.J. Lehman, danskur málari, málaði altaristöfluna 1866 (Upprisa Krists). Í kór kirkjunnar eru tveir stórir stólar og tíu minni, verk Einars Einarssonar, sem var þá djákni í Grímsey.

Merkustu bækur kirkjunnar eru Guðbrandsbiblía, prentuð á Hólum 1584 og Summaria, prentuð á Núpufelli árið 1589. Yfir sáluhliðinu í gamla kirkjugarðinum er vers úr 2. passíusálmi Hallgríms Péturssonar útskorið og málað á tréspjald: „Jurtagarður er herrans hér, helgra guðs barna legstaðir“ o.s.frv. Margt merkra manna og kvenna hvílir í þessum garði.

Myndasafn

Í grennd

Akureyri, ferðast og fræðast
Akureyri er stærsti kaupstaður landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi fallegi bær kúrir í fallegum  ramma innst í Eyjafirði vestanverðum og einhver…
Kirkjur á Íslandi
Það er erfitt að draga skörp landfræðileg skil milli kirkna, kirkjustaða og sögu kristninnar á milli. Á þessum vef fer skiptingin ekki eftir prófastsd…
Klaustur á Íslandi
Heimildir um einsetulifnað á Íslandi fyrir kristnitökuna árið 1000 og áður en klaustur voru stofnuð, eru til. Meðal þeirra er frásögn af Ásólfi Konáls…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )