Eldstöðvakerfi Vestmannaeyja er u.þ.b. 38 km langt og 30 km breitt. Þar eru tugir eldstöðva og leifar margra. Á þriðja tug þeirra má telja til nútíma (Holocene), aðrar frá síðari jökulskeiðum. Líklega hefur eldvirknin á þessu svæði ekki byrjað fyrr en fyrir 100-200 þúsundum ára og eldgos hafa verið alltíð. Sum eldgosin hafa skilið eftir minjar á sjávarbotni en eyjarnar eru annaðhvort sjálfstæðar gosstöðvar eða hlutar þeirra. Gosvirkni hefur verið tiltölulega lítil á sögulegum tíma en vafalaust hafa orðið gos á sjávarbotni án þess, að til séu um þau heimildir Getið er um sjávareld við Hellisey 1896 og annan í annálum frá 1637. Surtseyjar- og Heimaeyjargosin gefa til kynna, að þetta eldstöðvakerfi sé allvirkt.
Stefna þessa goskerfis er líkt og annars staðar, frá suðvestri til norðausturs, og sprungugos eru tíðust. Flest bendir til þess, að megineldstöð hafi myndast við uppbyggingu Heimaeyjar og jarðskjálftar gáfu til kynna kvikuhólf á 10-30 km dýpi í jarðskorpunni. Þessi þróun gæti leitt til tengingar eyjaklasans við land í fjarlægri framtíð.
Heimaklettur og nokkrar aðrar jarðmyndanir á Heimaey norðanverðri eru taldar vera frá lokum síðasta jökulskeiðs og eru að mestu úr móbergi, þótt nokkurra óreglulegra blágrýtismyndana gæti líka.
Álsey og e.t.v. Hellisey gætu verið u.þ.b. 8000 ára.
Stórhöfði á Heimaey myndaðist líklega fyrir u.þ.b. 6000 árum og Elliðaey og Bjarnarey um svipað leyti.
Heimaey myndaðist að mestu leyti fyrir u.þ.b. 5200 árum. Þá opnaðist svokallaður Stakkarbótargígur með miklum sprengigosum. Nokkrar hæðir (Sæfell) og Helgafell myndaðist.
Annálar geta um eldgos á sjávarbotni árið 1637.
Ísafold getur um gos á sjávarbotni við Hellisey árið 1896.
Surtsey myndaðist í lengsta sögulega gosi hérlendis á árunum 1963-1967.
Gos hófst á austanverðri Heimaey á 2-3 km langri sprungu, sem var að hluta til í sjó. Gosið hófst í janúar og lauk í júlí 1973.
SURTSEY. Gosið, sem skapaði Surtsey og fleiri eyjar, er meðal lengstu sögulegu gosa hérlendis. Þess varð fyrst vart snemma morguns 14. nóvember 1963 u.þ.b. 18 km suðvestan Heimaeyjar. Það hefur líklega hafizt nokkru fyrr á hafsbotni, 130 metra undir yfirborðinu. Mikið var um sprengigos vegna kælingar sjávar og 15. nóvember fór eyjan að myndast. Geysimikið magn gosefna barst til yfirborðsins og eyjan var orðin 174 m há í lok janúar 1964. Surtur yngri fór að myndast í byrjun febrúar sama ár og þar lauk gosi í lok apríl. Neðansjávarhryggur, sem var kallaður Surtla myndaðist á tímabilinu 28. desember 1963 til 6. janúar 1964. Hraun fór að flæða úr vestari gíg Surtseyjar 4. apríl 1964. Það rann aðallega til suðurs og austurs og upp hlóðst allt að 100 m þykkur hraunskjöldur við gíginn. Þessu hraungosi lauk 17. maí 1965. Þá var eyjan orðin 2,4 km². Vart varð goss 0,6 km ana Surtseyjar í lok maí og 28. maí fór að örla fyrir Syrtlingi. Sprengigos héldu þar áfram til upphafs október sama ár. Þessi eyja var horfin 24. oktober 1965. Jólnir myndaðist 0,9 km sv Surtseyjar á jólunum 1965.
Síðasta goshrinan varð þar 10. ágúst 1966 og eyjan var horfin í lok oktober sama ár. Hraungos hófst að nýju í Surtsey 19. ágúst 1966. Þá gusu nýir gígar í eystri gjóskugígunum, Surti gamla. Hraunið flæddi til suðausturs og austurs fram í júníbyrjun 1967, þegar Surtseyjareldum lauk. Í desember 1966 og fram í janúar 1967 gaus samtímis á fimm stöðum í eystri gjóskugígunum, en þar var lítið hraunrennsli. Gosið hafði tekið rúmlega þrjú og hálft ár, þegar því lauk og Surtsey var orðin 2,7 km². Heildarrúmmál gosefna varð 1,1 km³, 60-70% gjóska og 30-40% hraun. Vestmannaeyjar, nema norðurhluti Heimaeyjar, eru myndaðar á svipaðan hátt. Sjávar- og vindrof hafa minnkað Surtsey verulega, líklega niður fyrir 1 km². Eyjan var lýst sérstakt verndarsvæði til þess að vísindamenn gætu fylgst með allri þróun þar, þ.m.t. landnámi gróðurs og annars lífs. Leyfi til landgöngu í Surtsey eru ekki auðfengin, en hægt er að komast í bátum frá Heimaey til að sigla umhverfis eyjuna. Í framtíðinni verður vart annað eftir af eyjunni en klettadrangur eða drangar með fuglabjörgum.
HEIMAEYJARGOSIÐ hófst kl. 02:00 hinn 23. janúar 1973 og stóð í 155 daga. Síðustu merki gossins sáust í Eldfelli 26. júlí. Gossprungar var upphaflega 1½ km löng og u.þ.b. 300 m austan austustu húsanna í bænum. Í upphafi gossins blésu vindar úr vestri, þannig að aska barst ekki yfir byggðina fyrstu nóttina og daginn eftir. Vindáttin réði úrslitum um undankomu íbúanna á undraskömmum tíma og mun meira tjón en varð. Smám saman dró úr virkni á mestum hluta gossprungunnar og 7. febrúar gaus á 200 m kafla, þar sem Eldfell hlóðst upp í 220 m hæð yfir sjó.
Einu fyrirboðar gossins voru tvær jarðskjálftahrinur, þótt enginn tengdi þær við yfirvofandi eldgos. Talsverð strókavirkni var á nyrðri hluta sprungunnar fyrstu dagana og hraunrennslið náði u.þ.b. 100 m³/sek. Gjósku rigndi yfir bæinn dagana 25. og 27 janúar, þannig að mörg hús fóru í kaf og kviknaði í sumum. Gosmökkurinn sást víða að, s.s. frá höfuðborgarsvæðinu yfir Reykjanesfjallgarðinn. Hann náði allt að 9 km hæð. Hraunið rann í átt að innsiglingunni og talin var hætta á því, að hún lokaðist. Þá var farið að dæla sjó á hraunbrúnina og talið að sú ráðstöfun hafi breytt rennsli hraunsins. Þessi dæling hófst 6. febrúar og mesta geta dælanna var 2000 l/sek.
Langflestir íbúanna voru fluttir til lands fyrstu gosnóttina og í kjölfar þess hófst hjálparstarf af ýmsum toga. Þrátt fyrir milljarðaframlög ríkis, einstaklinga og erlendra ríkja, var tjónið, sem gosið olli ekki að fullu bætt. Við upphaf gossins bjuggu 5300 manns á Heimaey og árið 2007 voru íbúarnir í kringum 4070.