Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Eldfell

Eldfell Vestmannaeyjum

Hinn 23. janúar 1973, kl. 02:00 hófst eldgos á austanverðri Heimaey. Þá opnaðist u.þ.b. 1600 m löng   gossprunga rétt austan hins 5000 ára eldfjalls Helgafells. Sprungan teygðist milli Urða, austan Kirkjubæjar, og Lambaskorna við Stakkabót. Mestur hluti fiskibáta heimamanna var í höfn, þannig að flutningur fólks til lands hófst strax og gekk hratt og vel. Sprungan lokaðist nokkuð fljótt til beggja enda og styttist en flestir urðu gígarnir 30-40. Hún styttist enn og loks varð einn gígur eftir, sem hlóð upp Eldfelli. Fjöldi íbúðarhúsa var 1345 við upphaf gossins, u.þ.b. 400 þeirra grófust undir ösku og hraun og önnur 400 skemmdust. Hraunið rann að syðra hafnargarðinum (Hringskersgarði) og óttazt var, að það lokaði innsiglingunni.

Þegar upp var staðið, hafði hraunið, sem þrengdi innsiglinguna úr 800 m í 160 m , bætt hana verulega og skýlt henni fyrir ríkjandi austan- og suðaustanáttum. Í maí fór að draga úr gosinu og 26. júní rann ekkert hraun frá gígnum. Opinber goslok voru tilkynnt 3. júlí. Flatarmál hraunsins var 3,2 km² og 2,2 km² runnu fram í sjó. Heimaey var 11,3 km² fyrir gos en 13,4 km² eftir gos. Í febrúar hófst tilraun til að hægja á eða stöðva hraunstrauminn með vatnskælingu og í kjölfarið voru settar upp 40 dælur á Básaskersbryggu, sem dældu 1200 l/sek á hraunið. Þetta vatnsmagn samsvarar þreföldu meðalrennsli Elliðaánna.

Hreinsunarstarf hófst strax að gosi loknu og a.m.k. 2,2 milljónum rúmmetra af gosefnum var ekið á brott úr bænum. Hluti af þessum efnum var notaður til að breikka flugbrautir. Þessu starfi var haldið áfram næstu tvö árin. Árið 1974 var borað í hraunið og 80-100°C heit gufan notuð til upphitunar ferskvatns frá landi til húshitunar með varmaskiptum í lokuðu kerfi. Hitaveitan entist í 15 ár. Gosefni, rauðamöl, vikur, gjall og nýmyndaðar sand- og malarstrendur leystu úr skorti á byggingarefnum. Nýja hraunið er mjög þykkt og það munu líða áratugir áður en það og Eldfellið verða að fullu kólnuð. Eins og stendur þarf ekki að grafa dýpra en 50 sm í hlíðum Eldfells til að koma niður á 200-300°C hita. Hitinn á toppi Eldfells (200m) mældist 630°C árið 1998.

Við rætur Eldfells norðanvert er járnkross, sem söfnuður Landakirkju gaf til minningar um að 20 ár voru liðin frá goslokum 3. júlí 1993 og sem þakklætisvott um að enginn skyldi hafa farizt í gosinu. Árið 2003 var minnst 30 ára frá goslokum.

Myndasafn

Í grennd

Eldgos á Íslandi
Eyjar í Atlantshafi, sem orðið hafa til á rekás Atlantshafshryggjarins: Asoreyjar, Bermuda, Madeira, Kanaríeyjar, Ascension, St. Helena, Tristan da Cu…
Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar - perlan í hafinu - eru eyjaklasi suður af landinu. Eyjarnar eru 15 eða 16. Surtsey er syðst en Elliðaey nyrzt. Surtsey varð til i mik…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )