Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Fagurhólsmýri

Fagurhólsmýri er bær í Öræfum. Það er fallegt til allra átta frá staðnum og neðan klettanna er flugvöllur   sveitarinnar, sem leysti hana úr mestu einangruninni, þegar flug hófst þangað fyrr á 20 öldinni. Öræfingar kunnu vel að meta flugið og flutt jafnvel sláturfé sitt flugleiðis til Reykjavíkur.

Hofsnesbóndinn, Sigurður Bjarnason, og fjölskylda hans hefur gefið fólki í ógleymanlegar ferðir út í Ingólfshöfða og leiðir fjallgöngumenn um vandrataða stigu fjallanna í kring, meðal annars á Hvannadalshnúk.

Veðurathuganir hafa verið gerðar á Fagurhólsmýri frá 1903 og þar var verzlun og benzínstöð. Nálægt miðri flugbrautinni er Blesaklettur, þar sem Austfirðingar eru sagðir hafa fundið blesóttan hest, þegar þeir riðu til Alþingis eftir að Öræfajökull gaus 1362. Hann og smalinn í Svínafelli voru sagðir hinir einu, sem komust lifandi af úr jökulhlaupinu. Samkvæmt fornbréfi komust fleiri af en þjóðsagan segir.

Salthöfði gengur til suðurs milli Hofs og Hnappavalla, aflíðandi að Hofsnesi, þar sem hann endar 30-40 m.y.s., í þverhnýptu blágrýti austantil (fornum sjávarhömrum). Frá Hádegishamri, u.þ.b. hálfum km sunnan Hnappavalla og 4 km til vesturs að Gljúfursá, þar sem heitir Hamraendi. Þaðan eru 4 km til sjávar yfir flatlendi nema næst Hamraenda, þar sem framburður Gljúfursár og Öræfagossins 1362 er undirstaða flugbrautarinnar. Austan hennar er Blesaklettur. Enn austar er u.þ.b. 800 m langur höfði. Þar sem hann er hæstur (66m) er berggangurinn eða gígtappinn Salthöfði með gjallhólum að norðanverðu. Austan hans eru þrír drangar, Gimluklettur stærstur og auðveldur uppgöngu. Þar fannst ær með lambi eftir gosið 1362. Loddudrangur er mjór og talinn ókleifur. Sigurður Ingimundarson, bóndi á Fagurhólsmýri, kleif hann samt á 19. öld. Hann strengdi vað úr Salthöfða yfir Loddudrang og seig þangað til að steypa undan erni, hinum síðasta í þessum landshluta. Þarna voru fálkahreiður fram yfir 1930, hrafnar urpu þar oft og síðan flykktist fýllinn þar að.

Vikurskaflar frá Öræfajökli eru í grennd við Salthöfðann. Þeir komu að góðu gagni vegna þess hve einangrandi þeir eru. Þar geymdu Öræfingar saltkjöt í tunnum þar til þeir gátu fengið það flutt með skipum næsta sumar á markað. Sláturhúsið við höfðann var kallað Búðin. Það var notað sem geymsla milli sláturtíða og þar var einnig verzlun. Bæjarstaður er u.þ.b. hálfan kílómetra vestan höfðans. Þar eru bæjarrústir eftir gosið 1362.

Salthöfði og nánasta umhverfi var friðlýstur 1978.

Myndasafn

Í grennd

Jökulsárlón
Fyrir 1950 rann Jökulsá á Breiðamerkursandi beint undan jökli u.þ.b. 1½ km til sjávar. Síðan hefur jökullinn hörfað og sístækkandi lón myndazt. Meðalr…
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…
Suðursveit
Suðursveit er ævintýraland sem fleiri mættu gefa gaum að en hingað til. Óvíða finnst á svæði sem aka má   gegnum á þjóðvegi á um hálftíma slík fjölbre…
Vatnajökull kort
Kort af Vatnajökli Hér má sjá alla jökla sem saman mynda Vatnajökul og ýmsa staði sem tengjast Vatnajökli. On this map you can see the Glaciers how …
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli (1967, stækkaður 1984 og stækkaður enn 2004) og nágrenni geymir mestu náttúruperlur Íslands. Íslenskir og erlendir ferðal…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )