Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Landmannaleið

Laugavegur hiking

Á Landmannaleið:
KRINGLA – HELLISKVÍSL – RAUÐFOSSAFJÖLL – MÓGILSHÖFÐAR – JÖKULGIL BJALLAR – KIRKJUFELL – KÝLINGAR – JÖKULDALIR – HERÐUBREIÐ – HÓLASKJÓL

Kringla er svæði á Landmannaleið. Það er að mestu gróið og kringlulaga og umgirt fjöllum. Að norðan eru móbergsfjöllin Sauðleysur, Herbjarnarfell, Löðmundur, Lifrafjöll og Dómadalháls. Suðurfjöllin eru Krókagiljabrún vestast, Rauðfossafjöll og Mógilshöfðar. Á miðbikinu, þar sem er slétta, gamall vatnsbotn, eru fellin Sáta, Langsáta og Sátubarn gegnt Landmannahelli. Sléttan, sem er allvel gróin, er í 590 m hæð yfir sjó og fjöllin umhverfis í u.þ.b. 1000 m hæð. Löðmundarvatn, sem er leifar stærra uppistöðulóns, er við rætur Löðmundar, einhvers svipmesta fjalls á þessu landssvæði. Helztu kvíslar, falla um Kringlu eru Klukkugilskvísl og ós Löðmundarvatns. Þær sameinast í Helliskvísl, sem tekur síðan við Rauðfossakvísl hjá Sauðleysum. Landmannahellir var notaður sem skjól í göngum fyrrum. Nú er þar áfangastaður ferðamanna, sem vilja gista og hestamanna í nokkurra daga hestaferðum.

Rauðfossafjöll (1230m; ríólít) eru fjallgarður austan Heklu. Norðantil í þeim er stór sprengigígur og flest sumur eru snjófirningar í dýpstu lægðum. Rauðifoss steyptist niður þau norðvestanverð og blasir við af Dómadalsleið.

Helliskvísl á Landmannaafrétti, nánar tilgreint í Kringlu, er samansafn kvísla og lækja, sem eiga sér upptök í lindum og snjófyrningum í fjöllunum í kring. Vatnasviðið er u.þ.b. 90 km² að stærð og vatnsmagn árinnar er mjög mismikið eftir árferði. Árið 1913 stíflaðist Helliskvísl af Lambafitjahrauni, þegar eldgos varð á Lambafitjum. Þá mynduðust uppistöðulón, sem eru nú horfin, og áin fer í stórum krók norður fyrir Valafell út í Leirdal í Tungnárhrauni. Þar var henni beint í átt að Þjórsá vegna Búrfellsvirkjunar.

Mógilshöfðar eru tvö lítil ríólítfjöll í útjaðri Torfajökulssvæðisins, Litlihöfði (1159m ) og Stórihöfði (1043m). Hrikalegt Klukkugilið skilur þau að og úr því fellur Klukkugilskvísl í Helliskvísl. Jeppavegur af Dómadalsleið að Hrafntinnuskeri liggur yfir hálsana vestan Litahöfða.

Jökulgil er u.þ.b. 13 km langur og tiltölulega grunnur dalur, sem liggur til suðausturs frá Landmannalaugum inn undir Torfajökul og um hann rennur Jökulgilskvísl. Fjallshryggurinn Barmur og Hábarmur (1192m) er austan við Jökulgil og upp að honum er Sveinsgil en á móti, Laugamegin, eru Grænagil og Brandsgil, hrikalegt með margs konar litskrúðugum kynjamyndum. Jökulgilið lætur engan, sem leggur leið sína inn í það, ósnortinn. Það er eins og að hverfa út úr raunveruleikanum inn í ævintýri að hafa þennan ótrúlega litauðuga og fjallasal með lágmyndum náttúrunnar allt um kring. Það er jafnvel ekki nóg að bera umhverfið saman við fagurt listasafn. Fjöllin eru úr ríólíti og sums staðar sundursoðin af brennisteinsgufum. Gilið þrengist, þegar innar dregur, þar sem heitir Þrengsli, og innan við þau er smágróðurblettur við volga laugalæki í Hattveri og yfir rís ríólítnúpurinn Hattur, kynlega stuðlaður. Innsti hluti Jökulgilsins er ekki síður mikilfenglegur með Hábarm, Torfajökul, Kaldaklofsjökul og Reykjafjöll allt um kring. Háuhverir, mikið háhitasvæði, eru í hlíðum Reykja- og Kaldaklofsfjalla. Talið er að Torfajökulssvæðið sé mesta háhitasvæði landsins, sem er ekki hulið jöklum. Enskur ferðalangur fórst fyrir nokkrum árum við Háuhveri fyrir norðaustan Háskerðing.

Jökulgilskvíslin á upptök sín í Torfajökli og Reykjafjöllum. Henni hefur verið stýrt fram hjá Landmannalaugum með háum görðum til að koma í veg fyrir spjöll, sem hún olli þar í flóðum. Áin hleður stöðugt undir sig og hefur valdið hækkuðu grunnvatnsborði á Laugasvæðinu. Kvíslin fellur síðan áfram meðfram Norðurnámum út í Tungnaá. Brúin yfir hana var byggð 1966 og fram að því var hún versti farartálminn á hinni tiltölulega greiðfæru Landmannaleið. Sjaldgæft er að hægt sé að ganga, ríða eða aka inn í Jökulgilið á sumrin vegna árinnar. Bezti tíminn til þess er á haustin eða veturna, þegar lítið er í, því að oft þarf að fara yfir ána.

Þjóðsagan segir, að Torfi í Klofa og allt heimilsfólk hans hafi flúið undan plágunni miklu 1493 og dvalið í Jökulgili á meðan hún gekk yfir. Þá var þar grösugur og skógi vaxinn dalur með jöklum um kring. Engu slíku er að mæta þar nú á dögum. Útilegumannatrúin var lífseig í tengslum við Jökulgil þar til Landmenn rannsökuðu það 1852 án þess að finna nokkur merki um slíkt hyski. Þá var farið að leita gilið og heimtur urðu miklu betri hjá bændum eftir það.

Bjallar eru móbergshöfðar norðan Tungnaár á Landmannaafrétti. Þeir skiptast í Austurbjalla (797m), sem eru gegnt Kýlingum á Landmannaleið og Vesturbjalla (699m) norðvestur af Vatnaöldum. Bjallavað, neðan Vesturbjalla í var tíðum notað til að reka fé yfir ána á afréttinn. Ekki er um marga kosti að ræða, hvað vöð snertir yfir þessa vatnsmiklu á og þau ótrygg. Því var farið að ferja féð yfir nokkru austar og þar standa enn þá hlaðnir kofar, þar sem bátarnir voru geymdir. Um miðja 20. öldina uppgötvaði Guðmundur Jónasson, fjallagarpur, svokallað Hófsvað ofar í ánni í Svartakróki. Það var notað talsvert, enda traustur hraunbotn í ánni á þessum stað.

Kýlingar eru gróðurlendi við Landmannaleið. Það nær alla leið að Tungnaá og dregur nafn af tveimur allvelgrónum fellum, Stóra- (730m) og Litla-Kýlingi (727m). Sunnan Stóra-Kýlings er Kirkjufell, sem gnæfir yfir svæðið með hamrabrúnir efst. Kýlingavatn, lón úr Tungnaá, sem áin flæðir upp í, þegar vatnavextir verða, umlykur Litla-Kýling að mestu. Vegurinn milli Landmannalauga og Eldgjár liggur á bökkum lónsins og það er fagurt yfir að líta, grösugir flóar, flæðimýrar og fífuflóarnir gerast ekki fallegri annars staðar.

Kirkjufell (964m) er áberandi ríólítfjall nærri Kýlingum á Landmannaleið. Það er flatt að ofan og efsti hluti þess er hamrabelti úr biksteini og hrafntinnu. Skriðurnar neðan þess eru blágráar og gróðursnauðar. Jarðvísindamenn telja fjallið hafa myndazt við gos undir jökli á síðasta jökulskeiði á líkan hátt og blágrýtisstapafjöll. Uppganga á fjallið er tiltölulega auðveld og útsýni þaðan á góðum degi er óborganlegt. Við rætur þess autanverðs er Kirkjufellsvatn og úr því fellur Kirkjufellsós í Tungnaá. Ósinn markar skilin milli Vestur-Skaftafells- og Rangárvallasýslna.

Herðubreið (812m) er fjall, sem kemst ekki í hálfkvisti við nöfnu sína í Ódáðahrauni, þótt hún sé svipfríð og með tind upp úr kollinum. Suður úr fjallinu er Herðubreiðarháls. Þaðan er örugglega mesta víðsýnið af Fjallabak milli Eldgjár og Landmannalauga á góðum degi. Vegurinn niður af hálsinum til austur liggur beint niður í Eldgjá.

Jökuldalir eru sæmilega gróin dalkvos með víðigrundum og flóasundum og fögrum fjallahring við Landmannaleið milli Landmannalauga og Eldgjár. Þarna er leitarmannaskáli og fyrrum þótti ævinlega eitthvað óhreint vera á sveimi á þessum slóðum.

Hólaskjól er afdrep fyrir ferðalanga á Landmannaleið og Miðvegi í mjög fögru umhverfi, steinsnar frá Landmannaleið, Eldgjá, Syðri-Ófæru og Skaftá. Þarna geta gestir hvílt lúin bein, skoðað umhverfið nánar.

Myndasafn

Í grennd

Dómadalsleið
Dómadalsleið er vestasti hluti hinnar gömlu Landmannaleiðar, sem er tíðast kölluð Fjallabaksleið nyrðri. Hún liggur austur úr Sölvahrauni, austan norð…
Landmannahellir
Landmannahellir er í móbergsfellinu Hellisfjalli sunnan Löðmunds og vestan Löðmundarvatns. Hann er 4 m hár, 8 m breiður og 14 m langur. Ferðamenn og g…
Sögustaðir Hálendinu
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Sögustaðir. Nýjar og gamlar Hálendisleiðir, útilegumenn, þjófar og draugar eru meðal þess sem finna má á sö…
Veiðivötn Hrauneyjarsvæði
Veiðivötn eru meðal fegurstu svæða landsins. Það er ungt að árum í núverandi mynd, því að það varð til í náttúruhamförum árið 1477, þegar gaus á Veið…
Vötn að fjallabaki
Hin eina sanna Landmannaleið liggur á milli Landsveitar og Skaftártungu um Dómadal. Þetta er einn og litskrúðugasti fjallvegur landsins, sem er akfær…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )