Hafragilsfoss (27m) er einn þriggja fossa í Jökulsá á Fjöllum. Hann er u.þ.b. 2½ km norðan Dettifoss og blasir við við enda stutts vegslóða, sem liggur yfir einn gíga hinnar 80 km löngu gígaraðar á þessum slóðum við Jökulsá austanverða. Fossberinn er þétt grágrýtislag og handan ár er annar keilulaga gígur, sem Jökulsá hefur rofið við gljúfursmíðina. Margir sleppa þessum útúrdúr en óvíða annars staðar eru Jökulsárgljúfrin fegurri. Þarna er bezt að fara um með varúð, því oft hrynja heilu fyllurnar úr gljúfurbrúnunum.
Fossins er getið í Grettis sögu.