Stykkishólmur er oft kallaður höfuðstaður Snæfellsness. Bærinn stendur á innanverðu Snæfellsnesi, yzt á Þórsnesi. Byggðin stendur á klettaborgum með flóasundum á milli. Þarna eru þrír aðalklettahryggir, sem liggja frá norðaustri til suðvesturs, Ytrihöfði, Höfði og Steinólfshóll. Bærinn ber nafn sitt af klettahólmanum Stykki, sem er nú undir aðalbryggjunni. Höfnin er góð frá náttúrunnar hendi, þar sem Súgandisey, sem er tengd landi með hafnargarði, liggur þvert fyrir landi og ver hana fyrir norðanáttinni. Nánar um Stykkishólm undir áhugaverðir staðir hér að neðan. Fransiskussystur komu til landsins árið 1935 og reistu sér klaustur, skóla, prentsmiðju og kirkju í Stykkishólmi. Þær byggðu síðan spítala þar af miklum stórhug og er hann starfræktur enn þá. Árið 2009 voru þær aðeins fjórar og ákveðið var að þær hættu og Maríusystur tækju við starfseminni. Amtbókasafnið var stofnað árið 1847 og árið 1960 var byggt hús yfir það á Þinghúshöfða.
Frá Stykkishólmi eru ógleymanlegar skoðunarferðir milli hinna fjölmörgu eyja Breiðafjarðar. Almennt má segja að ferðaþjónusta í Stykkishólmi sé mjög fjölbreytt og er þar m.a. boðið upp á veiði á sjó, í vötnum og ám.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 170 km um Kerlingarskarð.
Innskot Birgir Sumarliðason flugstjóri og um tíma flugrekstarstjóri Vængja og eigandi nat.is
Vængir:
Flugfélagið Vængir starfaði á árunum 1970 til 1979. Það stundaði áætlunar- og leiguflug aðallega til staða á vesturlandi (Búðardals, Stykkishólms, Grundarfjörð, Rifs og Reykhóla), vestfjörðum (Tálknafjarðar, Bíldudals, Þingeyrar, Flateyrar, Hólmavíkur og Gjögurs) og á norðurlandi (Hvammstanga, Blönduóss, Siglufjarðar og Mývatns). Í flugflota Vængja voru flugvélar af ýmsum gerðum m.a. Beechcraft 18 og Piper PA-23 Apache. Vængir varð fyrsta flugfélagið hérlendis til að taka í notkun flugvél af gerðinni BN-2a Islander (1971) og fyrsta félagið hérlendis til að taka í notkun DHC-6 Twin Otter (1973).