Fjörður, um 9 km langur, vestan Hjarðarness. Vatnsfjörður er breiður í mynni og þrengist innar. Í miðju fjarðarmynninu er Engey, allhá, varp- og engjaland frá Brjánslæk. Inn af firðinum gengur Vatnsdalur. Vatnsfjörður er frægastur fyrir það, að þar hlaut Ísland nafngift sína.
Flóki Vilgerðarson gekk veturinn eftir komu sína hingað til lands upp á hátt fjall, ef til vill Lónfell (752m). Sá hann þá fjörð fullan af hafís og gaf landinu nafnið Ísland. Minnismerki um Flóka er í Vatnsfirði í grennd við Flókalund. Samkvæmt Landnámu kom Flóki öðru sinni til Íslands og settist að í Flókadal sunnan Haganesvíkur í Skagafirði. Hann er sagður heygður að Stóru-Reykjum, þar sem heitir Flókasteinn.
Mjög víðsýnt er af Lónfelli. Sér af því norður í Ísafjörð til Drangajökuls og Glámu og meginhluta fjalla kringum Breiðafjörð. Þangað er tæpur stundar gangur í norðlægt austur af veginum í Helluskarði, þar sem Suðurfjarðavegur frá Bíldudal kemur á Vestfjarðaleið við Hornatær.
Vatnsfjörður var gerður að friðlandi með lögum árið 1975. Friðlandið er í landi höfuðbólsins Brjánslækjar og eyðijarða sem liggja undir því.
Í Vatnsfirði er Flókalundur, gisti- og veitingastaður hjá brúnni á Pennu, innarlega í firðinum. Vegalengdin frá Reykjavík er um 365 km um Hvalfjarðargöng og Bröttubrekku.
Penna rennur um Penningsdal, að mestu í þröngu gljúfri, niður í Vatnsfjörð. Hún þótti oft erfið og hættuleg yfirferðar áður en brúin var byggð. Sagt er, að 18 manns hafi drukknað í henni.