Skólasetur og kirkjustaður í Hjaltadal. Um 1100 átti Illugi Bjarnason prestur jörðina. Þá var ákveðið, að biskupsstóll skyldi settur á Norðurlandi, en enginn vildi standa upp af föðurleifð sinni fyrr en Illugi varð til þess að gefa Hóla til biskupsseturs. Gerði hann það „fyrir guðs sakir og nauðsynja heilagrar kirkju”, segir í Jónssögu helga.
Hólar voru biskupssetur um 7 alda skeið, á árunum 1106-1798, og raunverulegur höfuðstaður Norðurlands á þeim tíma. Skóli var þar löngum samtímis biskupssetrinu en hann var lagður niður 1802. Mörg örnefni eru í landi Hóla, sem minna á sögu staðarins. Kirkjan átti að heita fullgerð haustið 1763 og var vígð með mikilli viðhöfn hinn 20 nóvember það ár. Dr. Kristján Eldjárn ritaði bækling um Hóladómkirkju (Um Hólakirkju; 1950; endurútg. 1963).
Árið 1881 keypti Skagafjarðarsýsla Hóla og 1882 var stofnaður þar búnaðarskóli. Fiskibúið Hólalax hf. var stofnað 1980. Heitt vatn var leitt þangað frá Reykjum árið 1980 en 1981 var það leitt til Hóla. Lögð er áherzla á kennslu í ferðamálafræðum, hrossarækt, tamingum, fiskeldi og vatnalíffræði.
Helgina 12.-13. ágúst 2006 var haldin mikil hátíð að Hólum til minningar um 900 ára sögu Hólastóls. Ríkisstjórnin afhenti rúmlega 500 bækur úr safni séra Ragnars fjalars Lárussonar og landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, sagði frá frumvarpi um stofnun háskóla að Hólum.
SÖGUSLÓÐ
Gengið eftir vörðum í slóð biskupanna um hinn forna Hólastað: Dómkirkjuna, biskupssetrið, Hólaprentsmiðju, skóla Jóns helga, Latínuskólann, Virkishól Jóns Arasonar, hina helgu lind Guðmundar góða (Gvendarbrunn), að gamla bænum (torfbæ frá árinu 1857), íbúð Jóns Benediktssonar (Hóla-Jóns). Þar lézt Þóra Gunnarsdóttir, sem Jónas Hallgrímsson orti um kvæðið „Ferðalok“, eitthvert fegursta ástarljóð á íslenzkri tungu.
Óhætt er að mæla með göngu upp að Gvendaraltari í hlíðum Hólabyrðu. Smágjald er tekið fyrir leiðsögu um dómkirkjuna og nánasta umhverfi staðarins á sumrin kl. 10-18. Kirkjan, Auðunarstofa og Nýjibær eru opin á þessun tíma. Á veturna er hægt að fá þessa þjónustu eftir nánara samkomulagi.
Víðines er næsti bær við Hóla. Hinn 9. september 1208 háðu Guðmundur biskup Arason og Kolbeinn Tumason eina stórorrustu sturlungaaldar. Kolbeinn var einhver voldugasti höfðingi Norðurlands og varð til þess, að Guðmundur var kjörinn biskup nauðugur. Þeir urðu síðan hinir mestu fjandmenn. Í Viðinesbardaga var Kolbeinn með 400 manna lið en Guðmundur var fáliðaðri. Þarna féll Kolbeinn, fékk stein í höfuðið, og menn hans hörfuðu. Jeppavegur liggur upp um Hálsgróf að eyðibýlinu Fjalli í Kolbeinsdal frá Víðinesi. Þessi leið var fjölfarin fyrrum, þegar Kolbeinsdalur var í byggð og enn þá var ferðast um Heljardalsheiði milli Hóla og Svarfaðardals.