Keldunes er bæjahverfi í Kelduhverfi, alls sex samtýnis bæir. Þar í nágrenninu eru Keldunesbrunnar, stór bullaugu við hraunbrúnina. Þarna var þingstaður sveitarinnar og fæðingarstaður Skúla Magnússonar (1711-94), fyrsta íslenzka landfógetans. Hann var frumkvöðull og stofnandi Innréttinganna í Reykjavík, fyrstu tilraunar til eflingar fullvinnslu ullar hérlendis, og baráttumaður fyrir verzlunarréttindum landsmanna og réttarkröfum á sviði verzlunar þeirra gegn dönsku einokuninni og dönskum stjórnvöldum. Hann átti í stöðugum deilum og málaferlum ævilangt, var traustur og raungóður vinur vina sinna. Hann var penni góður og skildi eftir sig fjölbreyttar ritsmíðar.
Bóndinn í Keldunesi skömmu eftir 1700 eignaðist barn með mágkonu sinni og þrátt fyrir að hann fengi annan mann til að gangast við barninu og loforð frá sýslumanni um uppgjöf saka, var hann dæmdur til lífláts á Alþingi 1705. Ekki vildi hann að lögð yrði náðunarbeiðni fyrir konung en setti fram þjár óskir, sem honum voru veittar. Hann fékk að ganga ójárnaður að höggstokknum, föt hans voru gefin fátækum í stað böðlinum og leg í vígðum reit. Barnsmóðurinni var drekkt á heimaslóðum í kjölfarið.