Galdrabrennur á Suðurlandi
Þórarinn Halldórsson 1667. Hann bjó á Birnustöðum og stundaði lækningar á fólki og skepnum í Ögursveit. Hann notaði eikarspjald við tilraunir til að lækna unga stúlku á Laugabóli. Hún dó og Sigurður Jónsson, sóknarprestur í Ögri komst yfir spjaldið. Skoðun á vorþingi leiddi ekkert í ljós. Skömmu síðar dó þessi prestur og það nægði til þess, að þórarni var kennt um bæði dauðsföllin. Hann flúði, rakaði hár og skegg, en fannst engu að síður í Staðarsveit á Snæfellsnesi og var sendur heim. Næst strauk hann alla leið í Rangárvallasýslu. Vísi-Gísli sendi hann heim þaðan. Réttarhöldin leiddu ýmislegt jákvætt og neikvætt í ljós. Fjallað var um málið á vorþingi 1667 án þess að nokkur fengist til að sverja með Þórarni. Þar var hann dæmdur sekur. Á Þingvöllum var ákveðið að brenna hann fyrir að rista rúnir og brúka þær til óleyfilegra lækninga. Þá kvað Þórarinn refsinguna við hæfi. Hann var hinn fyrsti, sem var brenndur á Þingvöllum.
Jón Leifsson 1669. Helga Halldórsdóttir í Selárdal í Arnafirði veiktist um áramótin 1668-1669og varð fyrir mikilli ásókn ills anda fram á sumar. Skæður draugagangur varð í dalnum eftir að hún lagðist í kör, svo að allir flúðu brott um tíma. Jón Leifsson hafði viljað kvænast einni þjónustunni á staðnum, en Helga lagðist gegn því. Hún kenndi því Jóni um veikindi sín. Yfirheyrslur leiddu í ljós, aðhann hafði stundað eitthvert kukl og um skeið var tvísýnt um, hvernig skyldi taka á máli hans. Eggert sýslumaður gekk skörulega fram og ákvað að láta brenna Jón fyrir vestan rétt áður en átti að ríða til þings. Hann fékk staðfestingu á dómnum eftirá á Þingvöllum.
Sigurður Jónsson 1671. Hann var úr Ögurhreppi og var ákærður fyrir veikindi húsfreyju nokkurrar í Ísafjarðardjúpi. Hann játaði galdur og sagðist fyrst hafa notað gráurt án árangurs. Vallhumall, kvikasilfur úr fjöðurstaf, sæði sitt, stafur, sem hann risti á eikarfjöl og vers eftir hann sjálfan hefði virkað. Hann sagðist líka hafa varizt sendingu með særingum og formælingum. Þegar það dugði ekki til, lagðist hann niður og greip græðisvepp og lét drjúpa í hann tvo blóðdropa. Þessu tróð hann í trantinn á fjandanum, sem sótti á hann. Sigurður náðist í Vigur og var brenndur á Þingvöllum.
Páll Oddsson 1674. Frá Ánastaðakoti á Vatnsnesi, þar sem hann hafði búið u.þ.b. tvo áratugi og var aldrei orðaður við galdra. Séra Þorvarður Ólafsson á Breiðabólstað bar á hann veikindi konu sinnar, Valgerðar Ísleifsdóttur, vegna rúnaspjalda, sem fundust. Páll kom ekki til þings, þegar málið var tekið fyrir og fannst hvergi. Fjarvera hans var honum í óhag. Þorleifur Kortsson fékk málið og Páll var í haldi hjá Guðbrandi Arngrímssyni, sýslumanni í Ási í Vatnsdal. Sagt var, að samband Páls og eiginkonu sýslumannsins hafi valdið því, að Guðbrandur sótti málið fastar. Páll fékk á sig fleiri kærur vegna veikinda og málinu var vísað til þings. Þar var Páli gefið tækifæri til að frelsa sig með tylftareiði, en þegar að því kom kom upp ágreiningur milli eiðsvotta og sumir báðust undan eiði. Engu að síður tókst að ná öllum saman nema einum. Fjórir vottar vildu sverja hann saklausan en sjö ekki. Páll játaði aldrei sök og tiltók mann, sem hafði rist eða látið rista spjöldin, sem málið var bygg á. Þessi maður sór sakargiftir Páls, svo að hann var dæmdur sekur gegn vitnisburði margra góðra manna. Sagnir segja, að hann hafi stungið höfðinu út úr eldinum og sagt: „Sjáið þar sakleysi mitt.” Hann var brenndur á Þingvöllum.
Böðvar Þorsteinsson 1674. Margkenndur við galdra. Hann var frá Snæfellsnesi og var brenndur sama dag og Páll Oddson frá Ánastaðakoti. Hann gaspraði um kukl sitt á vertíð á Gufuskálum á vetrarvertíð. Hann var spurður, hvort hann hefði valdið aflabresti á skipi séra Björns Snæbjörnssonar prófasts, og hann játaði. Séra Björn kærði hann. Böðvar dró játningu sína til baka síðar, en enginn tók mark á honum. Hann var brenndur á Þingvöllum.
Lassi Diðriksson 1675. Hann var talinn valdur að veikindum sona séra Páls prófasts og Helgu í Selárdal, þá sjötugur. Veikindum Egils Helgasonar, eins manna Eggerts sýslumanns á Skarði, var líka klínt á hann. Eggert var bróðir prófastsins. Lassi harðneitaði að vera viðriðin galdra. Þorleifur Kortsson fann ekki sannanir og sendi málið til þings, þar sem hann var dæmdur sekur og brenndur fyrir orð Eggerts. Mikil rigning gerði brennuna erfiða og eldurinn slökknaði þrisvar. Á leiðinni heim af þingi fótbrotnaði Eggert sýslumaður og sögðu margir að honum hefndist fyrir rangar sakagiftir.
Bjarni Bjarnason 1677. Hann var ættaður úr Breiðdal í Önundarfirði. Eiginkona Bjarna Jónssonar á Hafurshesti í Önundarfirði, Ingibjörg Pálsdóttir, áleit hann valdan að sjö ára veikindum sínum. Eftir að Bjarni var ákærður elnaði Ingibjörgu sóttin og hún dó áður en dómur féll. Hann viðurkenndi að hafa átt galdrastafi og engir fengust til að sverja hann saklausan. Þorleifur Kortsson fékk málið. Hann kom því til þings. Þar var hann dæmdur og brenndur 4. júlí að viðstöddum ásjáandi.
Þorbjörn Sveinsson 1677. Hann var ættaður úr Mýrarsýslu og kallaður Grenjadals-Tobbi. Þrjú Galdrakver og skinnþvengir með pári og galdrastöfum fundust á honum. Hann játaði að hafa ritað mest af þessu og reynt galdur til að gera fé spakara. Þess er ekki getið, að hann hafi gert öðrum mein. Áður hafði hann verið brennimerktur og hýddur fyrir þjófnað. Hann og Bjarni Bjarnason voru brenndir sama daginn á Þingvöllum.
Ari Pálsson 1681. Þorkatla Snæbjörnsdóttir, systir Björns á Staðarstað, sem átti þátt í að koma Böðvari Þorsteinssyni á bálið fáum árum áður, átti upptökin að máli Ara.
Hún kærði Ara vegna galdraspjalds, sem talið var að Ari hefði skilið eftir á heimili hennar. Vitnisburður var Ara mjög í óhag, því marga grunaði, að hann hefði valdið veikingum fólks.
Eftir uppkvaðningu dóms játaði hann fjölkynngi, að hafa farið með kotruvers og athugað, hvort konur væru óspjallaðar.
Hann var kallaður „hreppstjórinn prúðbúni” og því voru föt hans seld, þegar hann var brenndur á Þingvöllum
Árni Magnússon og Páll vídalín sendu skýrslu til stjórnarinnar í Kaupmannahöfn um réttarfar á Íslandi og röktu þetta mál. Þeir töldu augljót, að dómsmorð hefði verið framið, því allur málatilbúnaður var meingallaður.
Heimildir: Ólína Þorvarðardóttir: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2000. og nat.is 2024.