Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Breiðdalseldstöð

breiddalseldstod

Breiðdalseldstöðin er forn megineldstöð í Breiðdal og Berufirði, sem enski jarðfræðingurinn George D.L.  Walker hefur rannsakað ítarlega ásamt öðrum slíkum á Austurlandi. Þessi eldstöð er prýdd stórum ríólítinnskotum með tignarlegum og sérstæðum tindum, Flögutindi í Breiðdal, Smátindum, Röndólfi, Slötti og Stöng. Suðurhlíðar Breiðdals eru sérstaklega litskrúðugar og berglögin óregluleg með miklum gjóskumyndunum.

Talið er að þessi eldstöð nái á milli Fossárfjalls sunnan Berufjarðar norður í Bæjartind uppi af Þorgrímsstöðum í Breiðdal. Vesturhliðin liggur meðfram Ófærunöfum til vesturs en austurhliðin er eydd að mestu en nær þó örugglega austur fyrir Kerlingartind suður af Fagradal í Breiðdal. Suðurhluti Breiðdals, nálægt miðri eldstöðinni, er niðurgrafinn og hinn geysilegi hiti ummyndaði bergið þannig, að blágrýtið og andestítið varð ljósgrænt og því erfitt að greina það frá ríólítinu.

Þessi ummyndun er skírust við Innri-Ljósá og Blágil. Tindaröðin, sem talin er upp hér að framan, myndaðist síðar, þegar ríólítið tróð sér upp á yfirborðið í gegnum blágrýtislögin og mynduðu gúla ofan á þykkum gjóskulögum á gígbörmunum. Leifar þeirra koma fram í ríólíthömrum víða á svæðinu.

Breiðdalseldstöðin er talin yngri en Álftafjarðar- og Reyðarfjarðareldstöðvarnar og gjóskulag ofan á Reyðarfjarðarlögunum hefur verið rakið. Það mun hafa komið frá Röndólfi og nær yfir u.þ.b. 430 km² og er 6 m þykkt. Þetta lag er kennt við fjallið Skessu suður af Reyðarfjarðarbotni.

Myndasafn

Í grennd

Breiðdalssetur
Rannsóknasetur á Breiðdalsvík Í húsnæði setursins er sýning um jarðfræði Íslands og birtingarmyndir hennar á Austurlandi. Einnig getur þar að líta up…
Breiðdalsvík
Í Breiðdal er mesta undirlendi á Austfjörðum og fjöllin kringum Breiðdal eru hin hæstu þar og ná sum þeirra 1100 til 1200 metra hæð. Breiðdalsá er ein…
Jarðfræði Austurland
Við boranir á Austurlandi kom í ljós, að gangberg er u.þ.b. 50% bergs á 3 km dýpi. Á Austurlandi eru a.m.k. 14 megineldstöðvar. Líklega eru Austfirðir…
Sögustaðir Austurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landsins Aðalból Álfaborg Álfatrú Álftafjörður Ás í Fellum Ás í Fellum Áskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )