Eftir stofnun Útivistar var farið að huga að byggingu skála á Þórsmerkursvæðinu. Ákveðið var að byggja á Goðalandi. Þar með yrði einn skáli sunnan Krossár og til aukins öryggis ferðamanna, auk þess að hann veitti aðgang að stórkostlegu göngulandi. Básar höfðu fram að því verið nánast ónumdir, aðeins smalar og einstaka heimamenn undan Eyjafjöllum og af Rangárvöllum þekktu þessa einstöku paradís. Stóri skálinn í Básum var byggður á árunum 1980-1981 og litli skálinn skömmu síðar. Á miðjum níunda áratugnum var síðan byggt stórt eldhús og borðsalur við stóra skálann. Strax við landnám Útivistar var farið að byggja upp aðstöðu á tjaldstæðum.
Síðan hefur verið unnið stöðugt í sjálfboðavinnu að endurbótum á húsum og tjaldstæðum á Goðalandi. Útivist hefur gefið út göngukort með leiðarlýsingum um Þórsmörk og Goðaland en á Goðalandi er úrval gönguleiða, hvort sem menn kjósa auðvelda göngu eða að horfa til fjalla. Á sumrin er rennandi vatn og vatnssalerni við skálana og víða á tjaldstæðunum. Skálarnir eru kyntir með olíueldavélum og rafstöðin Básabína nýtir vatn úr bæjarlæknum til ljósa. Í húsunum er gistirými fyrir um 80-90 manns. Skálaverðir eru í Básum frá því snemma í maí og fram í október.
Sími: 562-1000
GSM 893-2910 hjá skálaverði í Básum
GPS hnit: N63°40,559′ W19°29,014′.
Heimild: Vefsetur Útivistar.