Vatnsdalsvatn er í samnefndum dal inn af Vatnsfirði á Barðaströnd. Það er í 8 m hæð yfir sjó og 2,4 km². Það er óhætt að fullyrða, að þetta svæði er meðal hinna allrafegurstu á landinu. Vatnsfjörður er þekktur úr sögunni vegna landgöngu Hrafna-Flóka, sem gaf landinu nafnið Ísland. Vatnið er þriggja km langt og eins km breitt og veiðileyfi gilda í því öllu.
Það eru engin takmörk á fjölda leyfðra stanga á dag. Í vatninu veiðist urriði og bleikja og sjóbirtingur sést endrum og sinnum svo og stöku lax, sem á greiða leið í vatnið um Vatnsdalsá, sem er stutt og auðgeng. Nokkrir tugir laxa og slatti af sjóbleikju veiðast í henni á hverju sumri. Tegundirnar halda sig á ákveðnum svæðum í vatninu og upplýsingar um þau eru veitt við kaup veiðileyfa á Brjánslæk (10 km). Veiðitímabilið er frá 1. júní til 20 sept. Þjóðvegurinn liggur að vatninu og vegi, sem er með því vestanverðu. Örstutt er í gistingu í Flókalundi og ágæt tjaldstæði eru á Brjánslæk. Veiði er heimil í öllu vatninu. Bestu veiðistaðirnir eru við ósa og útfall vatnsins, við árósa undir Kálfahjalla, þar sem efri hluti árinnar rennur út í vatnið. Jafnframt eru veiðistaðir á Viteyri, sem er fyrir miðju vatninu vestan megin og Kofanesi, sem er fremst í vatninu. Um 30 mín. gangur er að Lambagilseyrum, austanvert við vatnið. Þar er urriðasvæði. Ekki er leyfilegt að veiða í ám, sem tengjast vatninu. Mörk vatnsins og ánna eru sérstaklega merkt.Leyfilegt er að veiða frá kl. 7 til kl. 23.
Veiðikortið:
Veiðitímabilið hefst 1. maí og lýkur því 20. september.
Allt löglegt agn er leyfilegt: Fluga, maðkur og spónn.
Veiðivörður/tengiliður á staðnum:
Landvörður. Hótel Flókalundur, s: 456-2011.
Vegalengd frá Reykjavík er 340 km um Hvalfjarðargöng og -159 km, ef siglt er með Baldri frá Stykkishólmi til Brjánslækjar.