Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Tjörnes

Tjörnes er giljóttur og nokkuð hálendur skagi milli Skjálfanda og Öxarfjarðar. Austantil er hann brattur  og þverhníptur, en vestantil, og með ströndum fram, er hann láglendari

Þar eru allháir sandsteinsbakkar, sem eru einhverjar merkilegustu jarðmyndanir landsins allt frá plíósen til síðari hluta ísaldar. Þarna eru hraunlög, ár- og vatnaset og jökulruðningar, sem gefa til kynna loftslagsbreytingar og mismunandi gróðurfar og dýralíf í sjó. Þessi setlög eru allt að 500 m þykk en heildarþykkt jarðlaganna á nesinu er 1200 m. Elztu lögin, svokölluð báruskeljalög, eru syðst á milli Köldukvíslar og Rekár. Þar skiptast á surtarbrandslög og skeljalög.

Tígulskeljalögin taka við norður að Hallbjarnarstaðaá (útdauðar skeljar). Þar finnast einnig leifar margra skelja, sem lifa í hlýrri sjó við Evrópustrendur. Surtarbrandslögin voru numin í síðari heimsstyrjöldinni, allt fram til 1923. Þau sýna ótvírætt, að hér uxu barrskógar með furu og greni og laufskógar með eik, beyki, platanviði og leiru. Við Hallbjarnar- staðaá verður breyting á tegundum og kulvísum tegundum fækkar. Í staðinn koma skeljategundir, sem lifa enn þá við landið, s.s. krókskel. Margar skeljategundanna komu úr Kyrrahafinu, þegar Beringssund varð sjávarsund, þannig að þær eru þögul vitni upp aðskilnað Norður-Ameríku og Asíu. Talið er að þessi atburður hafi átt sér stað við lok tertíertímans og byrjun ísaldar (fyrir 3 – 3,5 millj. ára).

Furuvíkurlögin taka við norðan Höskuldsvíkur og ná að Breiðuvík. Þau eru u.þ.b. 250 m þykk, að mestu hraunlög með tveimum og jafnfram elztu (2 millj. ára) jökulruðningum á nesinu á milli. Breiðuvíkurlögin eru nyrzt og yngst, 125 m þykk, með lagskiptu jökulbergi og sjávarseti með skeljum, sem lifa flestar enn þá við landið. Í jökulruðningnum eru íshafstegundir, sem gefa til kynna að skipzt hafi á hlý og köld skeið. Plöntuleifarnar, sem hafa fundizt í Breiðavíkurlögunum (1,2 – 2 millj. ára) eru helzt frjókorn furu, elris, víðis og birkis. Þessi lög ná alla vega suður að Grasafjalli og Búrfelli, upp í 630 m hæð yfir sjó. Tjörneslögin sýna fram á, að ísöld hófst fyrir u.þ.b. 3 milljónum ára, og fundizt hafa merki um a.m.k. 10 kuldaskeið með tilsvarandi hlýskeiðum á milli. Einnig gefa Tjörneslögin ótvíræðar vísbendingar um mismunandi sjávarstöðu.

Bezt er að komast að þessum lögum í Hallbjarnarstaðakambi, þar sem er örlítil hafnaraðstaða fyrir trillukarla. Akvegur liggur um land Ytri-Tungu niður að sjó. Höfnin er aðallega notuð til hrognklesaveiða á vorin. Önnur brúnkolanáman, sem var unnin, er í landi bæjarins. Félagsheimili Tjörnesinga, Sólvangur, stendur að Hallbjarnarstöðum síðan 1960. Staðarmenn fullyrða, að hvergi sé betra að njóta miðnætursólarinnar en frá hæðunum norðan bæjarins. Við Máná er þétt net loftneta úti á túni. Þeim var komið þar fyrir til norðurljósarannsókna á vegum japanskra vísindamanna. Margir stanza við Engidalsgjá til að huga að fýl, lunda og fleiri svartfuglategundum. Geysigott útsýni yfir flata sanda Kelduhverfis fæst frá útsýnisskífunni fyrir ofan Auðbjargarstaðabrekkuna.

Mánáreyjar, Háey og Lágey, eru u.þ.b. 9 km norðan Mánár. Lágey var og er grösug og var nytjuð. Eldgos á sjávarbotni árið 1867 skapaði þriðju eyjuna, sem entist ekki lengi vegna sjávargangs. Sker og boðar eru umhverfis eyjarnar. Sjómenn á þessum slóðum telja, að bergið í Háey trufli áttavita.

Héðinshöfði var bústaður Héðins Þorsteinssonar, landnámsmanns, sem settist að á Tjörnesi ásamt bróður sínum, Höskuldi. Þeir komu sér fyrir innan Tunguheiðar samkvæmt Landnámu.

Benedikt Sveinsson (1827-1899) bjó þar sem sýslumaður í tvo áratugi. Hann var þingmaður í þrjátíu ár og var meðal hinna frjálslyndustu og mælskustu. Sonur hans var Einar Benediktsson (1864-1940), eitthvert þekktasta skáld 20. aldar. Hann ritaði margar bækur, bæði sögur og ljóð. Hann var mikill þjóðmálaskörungur og fésýslumaður um skeið, stofnaði mörg framkvæmdafélög til virkjunar fallvatna. Minnismerkið um hann við Héðinshöfða eftir Ríkharð Jónsson var reist 1972.

Skeifá fellur fram af sjávarbökkum milli Tunguvalla og Hringvers í fallegum fossi, sem sést vel af sjó. Í bökkunum í löndum Ytri-Tungu og Tunguvalla og Hringvers eru brúnkolanámurnar, sem voru nýttar í fyrri heimsstyrjöldinni. Ríkið sá um vinnsluna í Tungunámu, en Þorsteinn Jónsson, útgerðarmaður á Seyðisfirði, átti og rak Hringversnámuna. Núna eru þær báðar ríkiseign.

 

Myndasafn

Í grennd

Kópasker
Kópasker er kauptún við austanverðan Axarfjörð (Öxarfjörð) og eini þéttbýliskjarninn í Öxarfjarðarhreppi. Þarna var löggildur verzlunarstaður um 1880.…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…
Tjaldstæðið Mánarbakki
Mánárbakki Huggulegt tjaldsvæði sem er frábærlega staðsett með gott útsýni til hafs. Þjónusta í boði Rafmagn Sturta Eldunaraðst…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )