Þórólfsfell (574m) er austan byggðar í Fljótshlíð.
Landnámabók segir frá landnámi Þórólfs Askssonar vestan Fljóts milli tveggja Deildaráa og að systursonur hans, Þorgeir gollnir, hafi búið þar síðan. Hans sonur var Njáll á Bergþórshvoli, sem hafði þar einnig bú (Njálssaga). Mögugilshellir er í Þórólfsfelli en er nú fullur af auri og grjóti úr gilinu.
Meðfram fellinu er vegur, sem liggur inn á Miðveg (Fjallabak syðra). Efsti varnargarðurinn meðfram Markarfljóti var byggður út frá Þórólfsfelli til að bægja því frá farvegi Þverár.
Mögugilshellir er í vestanverðum rótum fjallsins, skammt innan Fljótsdals. Fíngerð, blágrá glerungshúð er inni í honum og loftið var alsett dropasteinum, þannig að margir gerðu sér ferð til að skoða hann. Gólfið er snarbratt niður, svo ekki var auðvelt að fara þar um. Nú er hann fullur af möl (árframburður). Hann er merktur með málmskildi.