Þangið vex á ákveðnu belti í fjörum milli lægstu fjörumarka og hálfflæðismarka. Það er slegið á floti, þegar ekki er of mikið fallið að og orðið of djúpt á því. Þörungaverksmiðja á nokkra sláttupramma, sem þangskurðarmenn fá lánaða. Þeir eru allstór flothylki úr járni, sem eru knúin með spaðahjólum. Framan á þeim er sláttubúnaður, sem er hægt að hækka og lækka. Þangið kemur síðan með færibandi og safnast saman þar til hæfilegt magn er komið. Þá er því hleypt í netpoka, sem er lokað og pokunum safnað saman í legufæri jafnóðum og þeir fyllast. Þegar nóg er komið í farm, eru þeir sóttir og fluttir til verksmiðjunnar, þar sem þangið er þurrkað við jarðhita og malað í mjöl. Reynslan hefur sýnt, að hæfilegt sé að slá þangið fjórða hvert ár, því það arf sinn tíma til að vaxa á ný. Með þeim hætti má taka nokkur þúsund tonn af þangi árlega í Inneyjum, en þar eru mestu þangfjörur Vestureyja.
Sláttuprammarnir eru búnir vinnuljósum, þannig að hægt er að vinna með þeim á nóttu sem degi en þó ekki hvernig sem viðrar. Í náttmyrkri villast ævinlega fuglar inn í vinnuljósin og rata ekki burt aftur. Einkum eru lundakofurnar gjarnar á þetta í ágústlok.