Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Strandarkirkja

Strandarkirkja er í Þorlákshafnarprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Kirkjan á Strönd er sóknarkirkja   Selvogs og þjónað frá Þorlákshöfn. Hún stendur fjarri öllum bæjum, því að engin önnur hús standa nú á Strönd. Öldum saman hefur fólk heitið á Strandarkirkju í tengslum við alls konar erfiðleika í lífi þess og peningar streyma inn vegna áheita. Hún telst því auðugasta kirkja landsins og er velviðhaldið af þeim sökum.

Núverandi kirkja er frá 1888. Hún var endurvígð eftir endurbætur 14. júlí 1968 og enn endurbætt og endurvígð 13. okt. 1996. Þjónustuhús var reist nálægt kirkjunni 1988. Í jarðhýsi er snyrtiaðstaða fyrir gesti og gangandi. Umhverfi kirkjunnar er allt til mikillar fyrirmyndar.

Pípuorgel kirkjunnar 6 radda af Walker gerð er frá 1969. Gamla orgelið frá 1898 var gefið kirkjunni 1997.
Altaristafla (Upprisan eftir Sigurð Guðmundsson frá 1865) stærð 175 x 118 cm.
Númeratafla er frá 1865 ásamt kassa með númerum.
Altari og prédikunarstóll eru frá 1888.

Þjóðsagan segir, að þar heiti Engilsvík, sem kirkjan stendur. Sjómenn í lífsháska hétu að byggja kirkju á ströndinni, ef þeir kæmust lífs af. Þá sáu þeir skært ljós í landi, en það var ekki lengur þar, þegar þeir lentu heilu og höldnu, heldur stóð skínandi vera í flæðarmálinu og tók á móti þeim. Sjómennirnir efndu heit sitt.

Styttan Landsýn eftir Gunnfríði Jónsdóttur (1889-1968) var afhjúpuð við kirkjuna við hátíðlega athöfn á öðrum degi hvítasunnu 1950. Styttuna vígði þáverandi biskup Íslands Sigurgeir Sigurðsson sumarið 1953. Styttan er af englinum, sem birtist sæförunum í sjávarháskanum og er minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík. Höggmyndin er úr ljósu graníti og var höggvin í Noregi. Hún sýnir okkur hvítklædda konu með skínandi krossmark, sem bendir sjómönnum í lífsháska inn í Engilsvík. Gunnfríður, sem var eiginkona Ásmundar Sveinssonar, myndhöggvara, var grafin í Strandarkirkjugarði.

Í byrjun 14. aldar getur Jón Espólín þess, að mannskaðar hafi verið stórir af völdum hallæris og að minnsta kosti 300 manns hafi verið jarðsungnir í Strandarkirkju einni.

Myndasafn

Í grennd

Grindavík Ferðast og Fræðast
Grindavík á Reykjanesi Grindavík var öflugasti útgerðarstaður landsins fyrir gosið á Reykjanesi . Þar var mikil gróska í útgerð og fiskvinnslu sem ve…
Kirkjur á Reykjanesi
Listi yfir flestar kirkjur landshlutans Grindavíkurkirkja Hvalsneskirkja Kálfatjarnarkirkja Kálfatjörn Keflavíkurkirkja …
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…
Þorlákshöfn
Þorlákshöfn er kauptún á Hafnarnesi, vestan ósa Ölfusár. Þar er eina góða höfnin á Suðurlandi frá Grindavík að Höfn í Hornafirði. Laxdælasaga segir f…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )