Stóra- og Litla-Dímon eru á Markarfljótsaurum í nágrenni elztu brúarinnar. Nafnið Dímon er talið merkja tvífjall, ef það er dregið af latneska heitinu „di montes”. Báðar hæðirnar eru velgrónar og hin stóra (178m) er í mynni Markarfljótsdals. Þar eru mörk Austur-Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur-Eyjafjalla. Rauðaskriða, sem getið er í Njálu, er í Stóru-Dímon. Litla-Dímon er rétt við brúna og veginn, sem liggur inn í Þórsmörk.
Við Markarfljót sátu Njálssynir fyrir Þráni Sigfússyni þegar hann var að koma frá Runólfi á Dal. Þráinn hafði komið Nálssonum í vandræði gagnvart Hákoni jarli í Noregi og neitaði að greiða þeim bætur þegar út var komið til Íslands. Nú skyldi hefnt. Í þeim bardaga vó Skarphéðinn Þráin Sigfússon. Í framhaldi af því bauð Njáll Höskuldi syni Þráins og Þorgerðar Glúmsdóttur fóstur hjá sér og gerði ætíð mjög vel við Höskuld, útvegaði honum meðal annars goðorð og gott kvonfang.
Gönguleið á Stóra – Dímon
Vegalengd: 1 km
Hækkun: 178
Göngutími: 1 klst
Leiðarlýsing:
Á þjóðvegi 1, leiðinni til Víkur frá Hvolsvelli, áður en að farið er yfir Markarfljótsbrúna, er beygt til vinstri inn Dímonarveg (250). Þaðan eru nokkrir kílómetrar að Stóru-Dímon. Á Fljótshlíðarveginum (261) er afleggjarinn rétt áður en komið er að Múlakoti, nokkurn veginn til móts við Gluggafoss.
Fjallið er 178 metra hátt og er það verðugt verkefni, bæði hjá börnum sem og fullorðnum, að klifra upp á Dímon.