Steinsholt er 5 km langur afréttur innan Langaness í Eyjafjöllum norðanverðum. Það afmarkast einnig af tveimur skriðjöklum, Falljökli eða Gígjökli og Steinsholtsjökli. Við jaðar þeirra eru djúp lón. Neðan Gígjökuls liggur leiðin inn í Þórsmörk. Afrétturinn er hlíðabrattur og skorinn djúpum giljum með hamraborgum á milli. Hann var mjög erfiður smölunar og stundum þurfti að láta fé síga í böndum niður á jafnsléttu.
Árið 1967 (15. jan.) brotnaði stór fylla úr Innstahaus (15 miljónir m3) við jökulinn vestanverðan, þar sem þverhnípið er u.þ.b. 400 m hátt. Þessar náttúruhamfarir komu fram á jarðskjálftamælum á Kirkjubæjarklaustri. Fyllan varð að stórri hrúgu á jöklinum, braut hann og bramlaði og jós stórri flóðbylgju upp úr lóninu. Hún bar með sér mikinn ís og stórgrýti. Vatnið hljóp fram í Markarfljót og rennslið við brúna, 25 km neðar, mældist mest 2100 m3/sek. Áætlað vatnsmagn var 1½-2½ miljónir rúmmetra.