Smiðjuvík er milli Smiðjuvíkurbjarga að norðvestan og Barðs að suðaustan. Nafn hennar er dregið af sögnum um smiðju Barða landnámsmanns í Barðsvík. Uppi á Smiðjuvíkurbjargi ber mest á Snóki og þaðan er útsýni gott yfir fjöllin milli Jökulfjarða og Hornstranda. Ögurkirkja átti jörðina í Smiðjuvík fyrrum.
Bærinn fór í eyði 1933 og varð fljótt vallgróinn. Hjálmar Jónsson, sem fluttist m.a. að Nausti í Grunnavík og Ísafjarðar, var síðasti bóndinn. Helztu hlunnindin voru rekaviður, fugla- og eggjatekja. Gönguleiðin milli Smiðjuvíkur og Barðsvíkur um Smiðjuvíkurháls (170m) er greið og vel merkt.