Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Skorradalur

Skorradalur er syðstur Borgarfjarðardala, 28 km langur. Vestast sunnan hans er Skarðsheiði, svo   Dragafell og Botnsheiði. Norðan hans er Skorradalsháls (435m). Upp úr honum austanverðum liggur forn leið að Eiríksvatni, með Veggjum og suður að Þingvallavatni og norður um Kaldadal. Skorradalsvatn fyllir upp mestan hluta dalsins en undirlendið vestan þess er breitt og mýrlent. Byggðin í dalnum var að mestu vestan, norðan og austan vatnsins en stök býli sunnan þess. Fyrrum voru allt að 22 bæir í dalnum og skógur og silungsveiði talin til hlunninda. Að Efra-Hreppi er jarðhiti og sundlaug. Kirkjustaðurinn Fitjar eru innst í dalnum (Hvanneyrarprestakall). Lítið er um hefðbundinn búskap í dalnum en sumarbústöðum fer fjölgandi. Skóglendi í dalnum stækkar ár frá ári. Skógræktin á ítök á sjö jörðum og eigendur sumarbústaða gróðursetja þúsundir trjáa árlega.

Þorbjörg, systir Harðar Grímkelssonar Hólmverja, bjó þar ásamt manni sínum Indriða. Móðir Þorbjargar andaðist á fæðingarbeði hjá bróður sínum, Torfa Valbrandssyni. Hann fól manni að drekkja barninu í Reykjadalsá en hann skildi það eftir í garðshliði hjá Grími, hálfbróður móður Þorbjargar, að Signýjarstöðum. Hann lét líta svo út, að kona hans hefði fætt honum barn og skírði það Þorbjörgu. Torfi sótti barnið æfur af reiði og sendi það með förumanni til Grímkels, föður hennar en hann rak þau brott. Þorbjörg, Hörður og Geir, fóstbróðir hans, fengu fóstur hjá góðu fólki. Hólmverjar, félagar Harðar, rægðu Indriða mág hans fyrir honum, þannig að ekki varð frændsemi milli þeirra og Hólmverjar fóru tvær ránsferðir að Indriðastöðum og reyndu að brenna bæinn. Þorbjörg hafði sent boð út og lið dreif að og hrakti Hólmverja á flótta. Hún hafði reynt margt til að fá Hörð til að segja skilið við félaga sína án árangurs. Þegar bændur héldu stefnu til að sameinast um aðför að Herði og Hólmverjum, sagðist hún mundu verða þess manns bani, sem vægi Hörð, og stóð við það (Geirshólmur).

Indriðastaðir. Á Indriðastöðum er stórt og vaxandi sumarbústaðahverfi, útleiga fjórhjóla með leiðsögumanni, hestaleiga og margs konar önnur afþreying, sem er skipulögð fyrir hópa.

Grund er stórbýli, sem sama ættin hefur setið síðan 1835.

Sarpur. Hér var Helgi Harðbeinsson staddur í seli, þegar Bolli, sonur Guðrúnar Ósvífursdóttur og Bolla Þorleikssonar felldi hann og hefndi með því föður síns. (Laxdæla)
Á móti Sarpi er foss, sem heitir Keilufoss. Þjóðsaga segir, að undir fossinum hafi alltaf verið nógur silungur, en þau álög fylgdu, að ekki mátti veiða meira hverju sinni en dugði í máltíð. Maður nokkur braut þessa reglu en veiddi þá keilu. Síðan hefur ekki veiðst þar.

Vatnshorn. Ekki er nefndur annar landnámsmaður í Skorradal en Skorri, leysingi Ketils gufu. Hann nam land fyrir ofan vatn og var þar drepinn, segir Landnáma. Er ekki vitað hvar hann bjó, en milli Vatnshorns og Haga eru Skorrhólar þrír, og er sagt að í einum þeirra sé Skorri grafinn. E.t.v. bjó hann á Vatnshorni?
Vatnshorn fór í eyði 1961.

Á Vatnshorni bjó Helgi Harðbeinsson, sem að sögn Laxdælu veitti Bolla Þorleikssyni áverka, þegar hann var felldur, en annar maður greiddi honum banahöggið. Helgi gekk að konu Bolla, Guðrúnu Ósvífursdóttir, og þurrkaði blóð af spjóti sínu í blæjuhorni hennar. Guðrún leit til hans og brosti við, en félagi hans kallaði þetta illmannlega gert. Helgi bað hann eigi það harma, „því að ég hygg, að undir þessu blæjuhorni búi höfuðsbani minn.“

Geldingadragi. Vegurinn yfir í Svínadal, dregur nafn sitt af því, þegar Hólmverjar rændu 80 geldingum frá Indriða, mági Harðar. Þeir lentu í ófærð, en Hörður dró tvo forystusauði á undan og gerði þannig braut fyrir hina.

Síldarmannagötur eru götuslóði, sem liggur upp fjallið rétt fyrir utan Botnsskála í Hvalfirði yfir í Skorradal. Gatan hlykkjast upp eftir Síldarmannabrekkum skammt utan við Brunná. Við upphaf leiðarinnar hefur verið hlaðin stór varða og öll leiðin var stikuð og vörðuð sumarið 1999. Ganga um Síldarmannagötur tekur um 4 tíma og er hvorki erfið né hættuleg. Útsýnið af Þyrli er mikið og fagurt, landslagið fjölbreytt og örnefni fjölmörg. Við Bláskeggsá má velja um að ganga áfram norður Síldarmannagötur eða fara eftir gamalli götu niður í Litlasandsdal.

Jarðfræði. Skorradalur er eins og mest öll Borgarfjarðarsýsla hluti af blágrýtismyndun Íslands. Þar er blágrýti lang algengasta bergtegundin, en þó kemur líparít fyrir á nokkrum stöðum. Blágrýtismyndunin er að mestu úr víðáttumiklum blágrýtislögum sem hlaðist hafa ofan á hvert annað og sjást í dag sem hamrabelti í hlíðum fjallanna. Hvert þessara belta er upprunalega
hraunflóð sem að runnið hefur frá eldstöð yfir flatt land. Þetta gerðist á tertíer tíma fyrir mörgum milljónum ára. Sum staðar á milli blágrýtislaganna eru þunn lög úr ýmis konar móbergi. Þau samanstanda að mestu úr hörnuðum árframburði, gosösku, gjalli og fleiru. Móbergið molnar
mikið fyrr en blágrýtið og sést það best sem beltaskipting í landslaginu. Blágrýtið er storkuberg, dökkt á lit, þungt í sér og svo þétt að oft og vatn vinna illa á því. Líparít sem að einnig er storkuberg finnst á einum stað í Skorradal norðan undir Skarðsheiði fyrir ofan Indriðastaði.
Dalurinn sjálfur er mótaður af framhlaupi skriðjökuls, sem virðist hafa gengið fram dalinn, en ekki unnið á berghafti sem lokar dalnum skammt fyrir ofan bæinn Efri Hrepp.

Skógræktin í Skorradal. Árið 1951- 1952 var Háafellsgirðingin stækkuð um einn hektara. Gróðursetningu var síðan haldið áfram uns reiturinn var full gróðursettur. Núna, rúmum 60 árum síðar er sitkagrenið orðið rúmlega 14 m. hátt og farið að sá sér. Á sama og tíma fyrstu plönturnar í Háafellsreit voru að vaxa og dafna herjaði síðari heimsstyrjöldin og í kjölfar hennar miklar þjóðfélagsbreytingar á Íslandi. Fólk flutti úr sveitum til þéttbýlisstaða. Fyrst fóru í eyði jarðir sem erfiðar voru til túnræktunar. Þá sáu efnaðir borgarbúar sér leik á borði að fjárfesta í tiltölulega ódýru landi. Á stríðsárunum keyptu hjónin Soffía og Haukur Thors forstjóri jarðirnar, Stálpastaði og Hvamm. Í Hvammi byggðu þau sumarhús og fengu að öllum líkindum hnausplöntur úr Háafellsreit til að gróðursetja í kringum sumarhúsið. Eflaust hefur það hvatt þau til dáða að sjá hve vel plönturnar í Háafelli döfnuðu. Árið 1952 fékk Skógrækt ríkisins jörðina Stálpastaði til skógræktar. Þessi gjöf hafði í för með sér upphaf reglulegrar skógræktar í Skorradal. Ef þessi gjöf hefði ekki komið til er ómögulegt að segja hvert hefði orðið framhaldið á skógrækt í Skorradal.

Gönguleiðir.
1. Upp úr dalnum að Eiríksvatni, yfir veggi, að Hvalvatni, yfir Leggjarbrjót, að Svartárkoti og niður í Þingvallaþjóðgarð.
2. Um Síldarmannagötur niður í Hvalfjarðarbotn. Þaðan liggur beinast við að kíkja á Glym.
3. Upp að Eiríksvatni og Reyðarvatni á Uxahryggjum.

Myndasafn

Í grennd

Borgarnes
Borgarnes Borgarnes og nokkur sveitarfélög í Mýrarsýslu sameinuðust fyrir nokkru undir nafninu Borgarbyggð. Borgarnes er í landi Borgar á Mýrum og hé…
Hvalfjörður
Hinn fagri Hvalfjörður gengur inn úr Faxaflóa milli Akraness og Kjalarness. Hann er u.þ.b. 30 km   langur, 4-5 km breiður og víðast alldjúpur. Mesta d…
Skorradalsvatn
Skorradalsvatn er 16 km langt og víðast 1 km á breidd. Flatarmál þess er 14,7 km² og mesta dýpi 48 m.    Vatnsflöturinn er í 57 m hæð yfir sjó. Fitjá …
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Akrafjall Akrakirkja Akranes Akraneskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )