Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Skeiðarársandur Skeiðará

Skeiðarársandur er eitthvert stærsta aurasvæði landsins á milli Öræfa og Fljótshverfis, u.þ.b. 1000 km².   Vegalengdin milli jaðars Skeiðarárjökuls og sjávar er á milli 20 og 30 km og strandlínan milli Hvalsíkis og Hnappavallaóss er u.þ.b. 56 km löng, þótt aðeins 40 km séu taldir til Skeiðarársands. Um aurana flæmast nokkrar jökulár, sem greinast í óteljandi kvíslar, þegar neðar dregur, og stundum belja fram hrikaleg flóð, einkum þegar Grímsvötn eða Grænalón tæmast af hlaupvatni eða eldgos bræða jökulinn. Þessi auðn er víðast gróðurvana og um aldir hefur reki verið sóttur á fjörur, þótt hann hafi verið mjög torsóttur vegna fjarlægðar, vatna og kviksyndis. Einkum var rekaviður sóttur að vetrarlagi, þegar minna var í og allt frosið. Þessi rekaviður hefur borizt og berst enn í minna mæli frá ströndum Suður-, Mið- og Norður-Ameríku við Mexíkóflóa með golfstraumnum.

Land- og útselir eiga sér látur á ströndinni og þangað var sótt björg í bú. Austurjaðar Skeiðarársands var byggður forðum, þegar ágangur jöklar og vatna var minni, þannig að gróðurlendi var meira en nú. Elztu heimildir um Skeiðarárhlaup má rekja aftur til 1598. Slík hlaup verða enn þá úr Grímsvötnum, þótt þau séu miklu minni nú en á fyrri hluta 20. aldar. Goshlaupið 1996 var gríðarstórt, allt að 55.000 m³/sek, en telst ekki til hinna reglulegu Grímsvatnahlaupa. Vafalítið hefur verið stór flói inn í landið, þar sem fremsti hluti Skeiðarárjökuls er nú, enda skilar hann líkt og Breiðamerkurjökull rekaviði frá fyrri tíð undan sér með hlaupvatni. Vestasta áin, sem rennur um sandinn, er Núpsvötn (hlaupa úr Grænalóni).

Næst kemur Súla og Blautakvísl (brúaðar saman 1972; 420 m). Þá kemur Sandgígjukvísl (brú 1973 og 1998). Skeiðará er austust og var mest ánna á sandinum (sumarvatn 200 m³/sek.; brúuð 1973-74 og löguð 1996-97; að mestu horfin 2009, aðeins Morsá rennur um farveg hennar). Brúin yfir hana er hin lengsta á landinu, 880 m. Sumarrennsli allra þessara vatna er u.þ.b. 300 m³/sek. Áður en árnar voru brúaðar voru þær hinir mestu farartálmar og einöngruðu Öræfasveitina um aldir. Þegar þær voru með öllu ófærar tóku landpóstar og aðrir ferðalangar það til bragðs að fara háskaferðir ofan þeirra á jökli. Í hartnær 30 ár brutust menn yfir óbrúaðar árnar á bílum, þegar hægt var snemma vors, og lengi voru páskaferðir í Öræfin vinsælar ævintýraferðir. Mesta furða er, hve fá dauðaslys urðu þar í ferðum, en mannskæðustu slysin urðu við skipströnd og skipbrotsmenn leituðu að byggðu bóli í misjöfnum veðrum.

Hinn 19. september 1667 strandaði hollenzkt kaupfar,  van Amsterdam, á Skaftafellsfjöru. Þetta var stórt skip, varla styttra en 50 m og 11 m breitt. Áhöfn hefur líklega talið 200 manns og einhverjir farþegar hafa líka verið um borð. Talið er, að 60  het wapen van amsterdam | DiveExplorer hafi komizt af. Skipið var í siglingum milli Austur-Indía (Java) og Hollands. Það var á leið til Hollands, þegar Hollendingar áttu í stríði við Breta og leitaði norður fyrir Skotlands til að lenda ekki í höndum brezka sjóhersins á Ermasundi og hraktist þaðan í vondu veðri í norðurátt og átt sitt skapadægur hérlendis. Skipbrotsmenn lentu í sjóvolki og hröktust um sandinn í kulda, þannig að 140 manns fórust og u.þ.b. 60 var bjargað. Farmur þess var talinn mjög dýrmætur, gull, silfur, krydd o.fl. og talsverðum hluta hans var bjargað frá borði en mikið var eftir, þegar björgunaraðgerðum var hætt. Leit að því í sandinum stóð óslitið í hartnær 3 áratugi. Árið 1983 var borað niður í sandinn, þar sem talið að skipið lægi grafið, og upp kom viðarkjarni. Hann var álitinn vera frá 17. öld og hafizt var handa við miklar framkvæmdir til að grafa flakið upp. Ríkið veitti ábyrgð fyrir 50 miljónum til þessa verkefnis. Vonbrigðin urðu mikil, þegar í ljós kom, að þetta var þýzkur gufutogari, Friedrich Albert.

Árið 1904 var byggt fyrsta skipbrotsmannaskýli landsins á Skeiðarársandi, en árið áður strandaði þýzkur togari þar og skipverjar lentu í miklum hrakningum.

Myndasafn

Í grennd

Lómagnúpur
Lómagnúpur er 688 m hátt standberg suður úr Birninum vestan Núpsvatna á Skeiðarársandi. Nokkur  augljós merki um berghlaup sjást við þjóðveginn (1790)…
Öræfajökull
Öræfajökull, hæsta fjall Íslands Öræfajökull er hæsta fjall landsins, 2110 m, sem teygist suður úr Vatnajökli. Hæð landsins sunnan þess     er u.þ.b.…
Skeiðará
Skeiðará er um 30 km löng jökulá sem rennur úr Skeiðarárjökli á sunnanverðum Vatnajökli og kvíslast yfir Skeiðarársand út í sjó. Vegna stöðugrar bráðn…
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli (1967, stækkaður 1984 og stækkaður enn 2004) og nágrenni geymir mestu náttúruperlur Íslands. Íslenskir og erlendir ferðal…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )