Skáli Útivistar í Stóragili á Skælingum var endurbyggður af Útivistarfélögum 1996-1997, en þar var fyrir gamall gangnamannakofi, sem Skaftártungubændur voru hættir að nota. Umhverfið er stórkostlegt en stórir hraundrangar, sem minna einna helzt á lystigarð, eru í næsta nágrenni. Frá skálanum er stutt ganga í Hólaskjól, en ákjósanlegar dagsgöngur eru m.a. á Uxatinda eða Gjátind. Torfær akleið er frá vegi að Gjátindi að skálanum. Húsið er kynt með litlum olíuofni og er búið dýnum og gashellu, en án borðbúnaðar. Vatn er sótt í læk skammt frá húsinu. Húsið er ekki einangrað og hentar því ekki til vetrarferða. Skælingaskáli getur hýst 16 manns.
Sími: 562-1000.
GPS hnit: N 63°58.849´ W 18°31.319´.