Selvatn er í Skagahreppi í A.-Húnavatnssýslu. Það er 1,1 km², grunnt og í 70 m hæð yfir sjó. Lækur fellur úr því í Hafnará, sem rennur um nokkur smávötn á leið sinni til Rekavatns. Í vatninu er bæði urriði og bleikja, vænn og góður fiskur. Sæmilega akfært er að vatninu og þar er sumarbústaður. Leigjandi vatnsins verður að stunda netaveiðar með stangveiðinni til að halda silungastofnunum í jafnvægi. Helst er að beita spóni og flugu.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 300 km og 35 km frá Skagaströnd.