Selárdalskirkja er í Bíldudalsprestakalli í Barðastrandarprófastsdæmi. Selárdalur er bær, kirkjustaður og fyrrum prestssetur yzt í Ketildölum við vestanverðan Arnarfjörð. Þar þótti lengi bezta brauð landsins. Katólskar kirkjum á staðnum voru helgaðar Maríu guðsmóður og Pétri postula. Útkirkja var í Laugardal í Tálknafirði. Prestakallið var lagt niður 1907 og sóknin lögð til Otradals (Bíldudals).
Stóri-Laugardalur var gerður að annexíu frá Patreksfirði, sem var tekinn út úr Sauðlauksdalsprestakalli og nýtt prestakall var gert úr þeim sóknum. Kirkjan, sem nú stendur, er úr timbri, upphaflega smíðuð 1861. Á aldarafmæli hennar var hún rifin og endursmíðuð vegna áratuga vanrækslu. Þetta er stórt guðshús og merkilegt og á marga góða gripi. Predikunarstóllinn er forn með máluðum myndum af Móses og spámönnunum. Altaristaflan er dönsk frá 1752 og sýnir kvöldmáltíðina. Kaleikurinn er mjög vandaður, frá 1765. Fyrir framan kirkjuna er stein með þremur íhöggnum bollum, Mjaltakonusteinn. Margir álíta hann blótstein úr heiðni en þjóðsagan segir, að Árum-Kári hafi borið hann í frakkalafi sínu úr Bogahlíð, framar í dalnum.
Staðarins er fyrst getið á 13. öld í Staðamálum, einhverri mestu deilu fyrri alda, þegar leikmenn og biskup deildu um yfirráð kirkjustaða, eignir þeirra og tekjur. Upptökustefna kirkjunnar gekk þvert á hagsmuni kirkjugoðanna. Lyktir þessara deilna urðu þær, að leikmenn héldu þeim kirkjustöðum, sem þeir áttu meira en helming í. Jörðin í Selárdal varð eign kirkjunnar.
Staðamál hin fyrri voru uppi á dögum Þorláks helga Þórhallssonar (1178). Hin síðari á dögum Árna Þorlákssonar (Kristniréttur Staða-Árna 1275). Báðir voru þeir biskupar í Skálholti.
Séra Páll Björnsson (1621-1706) er tvímælalaust frægastur presta í Selárdal. Hann er sagður hafa afþakkað biskupsstöðu í Skálholti vegna þess, hve vel fór um hann í Selárdal. Hann var mikill lærdómsmaður og reiknaði m.a. út hnattstöðu Bjargtanga. Hann var lipur tungumálamaður og smíðaði þilskip að hollenzkum hætti og sigldi því sjálfur í tvo áratugi.