Selárdalur er næstvestastur Ketildala í Arnarfirði. Í dalnum er bær sem heitir líka Selárdalur og var eitt af höfuðbólum Vestfjarða.
Selárdalsprestakall var áður fyrr talið með betri prestaköllum landsins, með því að Stóra-Laugardalssókn sem náði yfir allan Tálknafjörð var annexía frá Selárdal. Einn af Selárdalsprestum varð síðar biskup, en það var Gísli Jónsson, sem var prestur í Selárdal frá 1547-1557. Séra Gísli varð biskup í Skálholti eftir Marteinn biskup Einarsson.
Frægir ábúendur í Selárdal eru t.d. Bárður svarti Atlason (afi Hrafns Sveinbjarnarsonar), Páll Björnsson, Gísli á Uppsölum, Hannibal Valdimarsson og Samúel Jónsson, sem kallaður hefur verið listamaðurinn með barnshjartað. Þar fæddist Jón Þorláksson á Bægisá. Síðasti bærinn, Neðribær, fór í eyði 2010.