Neðan bæjar að Reykjum við Hrútafjörð er Reykjatangi. Þar er Reykjaskóli og byggðasafn Strandamanna og Húnvetninga. Ofan tangans er hver, sem er nytjaður til húshitunar og sundlaugar. Í hverahrúðrinu finnast miklar leifar sæskelja frá fyrri skeiðum jarðsögunnar. Að Reykjum var heimavistarskóli, og Edduhótel á sumrin en nú eru reknar þar skólabúðir, 5 daga dvöl 12 ára barna í senn á veturna, nema í desember og janúar, og „Sumarland” fyrir börn í viku í senn.
Vestur-Húnvetningar og Strandamenn stóðu saman að stofnun og opnun byggðasafnsins að Reykjum við austanverðan Hrútafjörð 9. júlí 1967. Fólkið við Húnaflóann deildi svipuðum kjörum um aldir og starfshættir voru svipaðir, þannig að heillaráð var að standa saman að þessari stofnun. Frumkvæði að henni kom frá átthagafélögum sýslnanna í Reykjavík snemma á sjötta áratugi 20. aldar og í lok hins sjöunda var búið að safna talsverðu magni muna fyrir safnið við Reykjaskóla. Þjóðminjasafnið hafði þá þegar reist þar skála fyrir hákarlaskipið Ófeig, sem er meðal merkustu sýningargripa safnsins. Ófeigur var smíðaður í Ófeigsfirði árið 1875 og var notaður til hákarlaveiða hvern vetur til 1915. Hann var meðal síðustu opinna skipa, sem var gert út frá Ströndum. Síðasta hákarlalegan þaðan í opnu skip var árið 1916.
Þarna er líka eftirmynd af baðstofu og frambærinn frá Tungunesi í Austur- Húnavatnssýslu, sem Erlendur Hjálmarsson, bóndi þar og dannebrogsmaður byggði 1850. Hann vildi hafa höfðingjasnið á bænum og náði því marki með viðhafnarinngangi. Bæjardyrnar ná fram fyrir langhlið frambæjarins. Þær eru með hárri burst og íburðarmikilli vindskeið. Þá er klassískur bjór yfir dyrum og glugga. Öðrum megin bæjardyranna er stofa og svefnloft en skemma hinum megin. Annars var þetta hefðbundinn gangabær með göngum í framhaldi af innganginum. Höfundur þessarar bæjargerðar var Guðlaugur Sveinsson, prófastur í Vatnsfirði (1731-1807). Svipað snið má sjá á elzta húsi landsins, skálanum á Keldum. Framan við bæinn í safninu er fyrsta dráttarvélin, sem kom í sýsluna og Hestvatn frá verzlun Sigurðar Davíðssonar á Hvammstanga.