Fornmannakumlanna, 2½ km austan Keldna á Rangárvöllum, var fyrst getið í upphafi 19. aldar. Þau eru báðum megin núverandi leiðar um Miðveg. Margir menn voru greinilega grafnir á öðrum staðnum, þar sem fundust m.a. bronskringla, hringamél, hóffjöður, skeifa og þrjú spjót. Í hinu kumlinu, sem er í Árholtsbrún, fundust engin verðmæti önnur en útskorinn beinhólkur með myndum af tveimur hjartardýrum að bíta trjálauf.
Kristján Eldjárn gerði því skóna í bókinni „Gengið á reka”, að þarna væri e.t.v. kominn sönnun fyrir bardaganum við Knafahóla, sem Gunnar og Kolskeggur lentu í samkvæmt Njálssögu. Síðar dró Kristján í land með þessa kenningu í doktorsritgerð sinni.
Knafahólar eru u.þ.b. 4 km norðan Keldna. Samkvæmt Njálssögu sátu þar 30 menn fyrir bræðrunum Gunnari, Kolskeggi og Hirti. Þeir hopuðu niður að Rangá undan árásarmönnunum og þar sló í bardaga. Þar féll Hjörtur og 14 andstæðinganna áður en flótti brast í lið þeirra.
Fyrrum var byggð í kringum Knafahóla, þar sem nú er einungis sandorpið landslag.