Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Öxarfjörður

Kópasker

Mynd Kópasker

Öxarfjörður eða Axarfjörður er á milli Tjörness og Melrakkasléttu. Flóinn er u.þ.b. 30 km breiður milli  Knarrarbrekkutanga og Kópaskers en nær stutt inn í landið. Vestantil eru sæbrattar og þverhníptar hlíðar Tjörnessins og milli þess og Öxarfjarðarhrepps eru miklir og flatir sandar Kelduhverfis, framburður Jökulsár á Fjöllum. Þegar framburðurinn er mestur sjást glögg litaskipti í sjónum, langt út á flóann.

Hvítabirnir voru tíðir gestir með hafsísnum, sem fyllti stundum flóann og fara ýmsar sögur af viðureignum við þá. Hafísinn rak líka hvali með sér á land auk trjáviðar. Rekaviðurinn á norðanverðu landinu er kominn alla leið frá ströndum Síberíu, þar sem hann berst niður árnar og bolir, sem sökkva ekki festast í ísnum. Ísinn berst síðan umhverfis Norðurpólinn og flekar losna frá meginísnum norðan landsins og berast með Austur-Grænlandsstraumnum að ströndum Íslands.

Ferjubakki er bær við Jökulsá á Fjöllum í Öxarfirði. Þar var lögferjustaður þar til brú var byggð 1905. Á sama stað var byggð hengibrú á árunum 1956-57.

Fornbréf frá 1402 segir, að íbúar nærliggjandi sveita skuli greiða 5 pund smjörs þriðja hvert ár til ferjubónda sem ómakslaun og viðhalds ferjunnar. Þessir sveitamenn fengu frían flutning með ferjunni, en aðrir urðu að greiða farið. Síðar var þessi háttur lagður af, fastir ferjutollar teknir upp og sýslan annaðist ferjuna.

Bæklingar og kort um göngu- og ferðaleiðir í Kelduhverfi, þjóðgarðinum og á Melrakkasléttu fást í aðalmiðstöð þjóðgarðsins í Ásbyrgi.

Lundur er grunnskóli milli Skinnastaðar og Ærlækjar. Barnaskóli með heimavist var reistur 1928 og héraðsskóli Norður-Þingeyinga var rekinn þar á árunum 1965-72.

Núpasveit nær frá Öxarnúpi að Snartarstaðanúpi og byggðin er aðeins með ströndinni. Bak við hana eru lág fjöll og hraunum þakin heiðarlönd. Talsvert var róið til fiskjar, m.a. frá Buðlungahöfn norðan Brunnáróss. Þar var líka löggilt höfn og enn þá sjást merki um vöruhús kaupmannsins á Húsavík. Brunná hefur smám saman borið í hana sand. Sveitin er ekki þéttbýl, en þar eru engu að síður mörg myndarbýli. Kópasker er í Núpasveit.

Núpur er vestan Öxarnúps. Á 19. öld flúði heimafólk bæinn vegna magnaðs draugagangs. Ástæða hans var sögð vera álagatjörn norðan núpsins. Sagt var, að friðhelgi hennar hefði verið rofin og því varð allt vitlaust. Hús léku á reiðiskjálfi og munir þeyttust um þveran og endilangan bæinn. Allt var brotið og bramlað, jafnvel niðri í læstum hirzlum.

Skógar eru stórbýli í Austur-Sandi í Öxarfirði og talið fyrsti bærinn, sem var byggður í óshólum Jökulsár á Fjöllum. Jörðin er stór, engjar grösugar og reki góður. Sagan segir, að bóndinn á bænum hafi fengið hugboð um yfirvofandi náttúruhamfarir vorið árið 1717, þegar Jökla þornaði upp. Hann létt flytja öll verðmæti upp á loft og bát að bæjardyrum og binda hann þar. Heimilisfólkið mátti ekki ganga til hvílu, því bóndi bjóst við hinu versta. Um bjarta nóttina sá fólkið vatnsvegginn koma æðandi úr suðri, en bærinn slapp. Ísjakar bárust upp á hlaðvarpann, en ekki þurfti að grípa til bátsins.
Árin 1975-76 hækkaði vatn svo mikið í Skógakíl, sem fellur fram hjá bænum, að flytja þurfti burt hey og fé. Járskjálftarnir ollu þessum breytingum.

Kort Norðurland

Myndasafn

Í grennd

Húsavík
Húsavík er kaupstaður við innanverðan Skjálfanda að austanverðu. Fiskvinnsla og útgerð hefur verið ein  af stoðum atvinnulífisins ásamt með verslun og…
Kópasker
Kópasker er kauptún við austanverðan Axarfjörð (Öxarfjörð) og eini þéttbýliskjarninn í Öxarfjarðarhreppi. Þarna var löggildur verzlunarstaður um 1880.…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )