Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Sprengisandur, Nýidalur eins og var

sprengisandur

Nýidalur eins og var.  !!
Glaugst er gest auga!!
ÍSLANDSFERÐ 1973
JOACHIM DORENBECK

Innskot Birgir Sumarliðason flugstjóri og um tíma flugrekstarstjóri Vængja og umsjónarmaður nat.is.

Skálinn í Nýjadal var í tæplega sjötíu km fjarlægð í beinni loftlínu, en líklega nærri 100 km ganga. Við reiknuðum með því að verða fjóra til fimm daga á leiðinni þangað.

Bo hafði boðizt til að bera vistapokann minn og ég þáði það með því skilyrði, að við deildum með okkur innihaldinu. Kerran var mjög létt núna og auðvelt að ráða við hana án aktygjanna.

Við gengum beint upp í vindinn og brúnt sandduftið blés um fætur okkar. Brátt misstum við sjónar á stikunum, sem stóðu með u.þ.b. eins kílómetra millibili og náðu upp í mittishæð. Við reyndum að halda stefnu aðeins til vinstri við beina línu meðfram jaðri Vatnajökuls. Þannig ætluðum við komast sem fyrst sem næst honum og snúa síðan til vesturs yfir leysingarkvíslarnar, ef þær væru einhverjar, sem næst jökli, þar sem við bjuggumst við, að þær væru mjóstar.

Síðla síðdegis fórum við yfir breiða kvísl. Vatnið var grunnt og tiltölulega tært. Ég óð berfættur yfir til að halda skónum þurrum eins lengi og kostur var. Við gengum til hægri meðfram kvíslinni og komum að hraunjaðri. Þar sem vindurinn af jöklinum var svolítið napur, skriðum við í skjól við stóran stein og fengum okkur tesopa í soðnu skaflavatni, sem ég átti enn þá. Þegar ég fyllti flöskuna aftur var vatnið brúnt eins og kaffi með mjólk. Liturinn breyttist ekkert, þótt ég reyndi að sía það í gegnum bréfvasaklúta.

Þegar við héldum af stað aftur, tók hinn nýi félagi minn kerruna að sér. Við höfðum kvíslina á hægri hönd og gengum upp með henni. Hún leiddi okkur æ meir í suðlæga stefnu þangað til Bo mundi eftir gælunafni sínu úr hernum: „Froggy“. Hann óð út í ána í skóm og sokkum og náði bakkanum hinum megin.

Ég horfði á gruggugt vatnið og hélt svo áfram sömu megin í þeirri von að finna stað, þar sem ég kæmist yfir í fáum skrefum. Því lengra, sem gengið var, breiddi áin meira úr sér og kvíslaðist milli sandtungna. Loks var fjarlægðin á milli okkar Froggy orðin veruleg, enda vorum við sinn á hvorum árbakkanum og ég stefndi beint í suður. Kvíslin næst mér var 4 – 5 m breið, straumurinn stríður og hún virtist vera dýpri en áður.

Framundan voru háar sandöldur (jökulöldur), þar sem áin brauzt fram á sandana í gegnum skarð. Froggy, sem var í nokkur hundruð metra fjarlægð til hægri, gekk rösklega til suðvesturs í kvöldsólinni. Ég velti fyrir mér, hvað væri handan jökulaldanna, þegar ég nálgaðist skarðið. Þar voru óreglulegar sandhrúgur, sem jökullinn skildi eftir, þegar hann hopaði.

Þegar ég hafði paufazt yfir brattann í skarðinu, breyttist yfirborðið í drullu og polla í sandinum. Lengra varð ekki komizt. Til vinstri opnaðist lágur og stuttur hellir. Vatnið dropaði úr hellisþakinu niður í pollana á gólfinu.

Himinninn var að verða alskýjaður. Froggy hlaut að vera einhvers staðar á sandinum að nálgast hæðirnar í vestri og var líklega að velta fyrir sér, hvar ég væri. „Aldrei að missa sjónar á ferðafélaganum í framandi umhverfi!” Hvort sem mér líkaði betur eða verr, var ég að komast yfir ána. Hvers vegna í fjandanum vorum við að vaða yfir hana fyrr um daginn?

Ég fór úr sokkunum, fór í skóna aftur og rúllaði buxnaskálmunum upp. Ég var tilbúinn. Líklega væri bezt að gefa Froggy merki um, hvar ég var áður en ég legði í ána. En mundi hann skilja, hvað grænt ljósmerki þýddi? Við höfðum ekki talað um neyðarblysin. Auðvitað skildi hann þau, hann var yfirmaður í hernum.

Þarna var hann, svolítið niður með ánni í brattanum í skarðinu með kerruna í eftirdragi. Með erfiðismunum gat ég gert honum skiljanlegt, að hann þyrfti ekki að koma mér til hjálpar, rétt áður en hann ætlaði að demba sér út í ána. „Já, en ég er „Froggy”, sagði hann.

Hann hefði getað verið fiskur mín vegna. Ég ætlaði að halda áfram að vera maður, sem vill hafa þurrt land undir fótum, nema nauðsyn krefjist annars. En það var hughreysting að hafa einhvern í grenndinni, þegar ég óð yfir ána.

Ég steig varlega út í. Vatnið var mun grynnra en ég hafði búizt við og ég komst klakklaust yfir án þess að nota reipið eða bambusstöngina, sem var náttúrulega hjá Froggy á kerrunni.

Síðan fórum við báðir út úr skarðinu í jökulöldunni til að leita að hentugu tjaldstæði. Við fundum hreinan vatnspoll, svo að mér var óhætt að hella grugguga vatninu niður. Drullan í því hafði sezt til og sat eins og steinsteypa í flöskubotninum. Ég var lengi að skola hana úr.

Ég hafði alltaf haft ímigust á pollavatni vegna bakteríanna, sem lifðu þar góðu lífi. Ég hafði líka búið alla ævi á suðlægari breiddargráðum, þar sem allt var grænt á sumrin og skordýr þrifust vel. Á hálendi Íslands eru allir pollar og tjarnir eins gerilsneyddir og karbólsýra, en miklu hollari fyrir magann.

Við tjölduðum í smáslakka norðan jökulöldunnar. Þar var skjól og það var farið að lygna, að minnsta kosti heyrðum við lítið til Kára. Í staðinn fórum við að heyra nýtt hljóð, sem kom handan jökulaldanna og var okkur ókunnugt. Þetta var stöðugur hávaði, sem líktist einna helst lest, sem var á leið fram hjá í fjarlægð. Í fyrstu kunnum við enga skýringu á þessu fyrirbæri, en urðum svo ásáttir um, að þetta væru þúsundir tonna af leysingarvatni undan og ofan af jökli, sem jökulöldurnar beindu til austurs meðfram jökuljaðrinum.

Ég var milli svefns og vöku næsta morgun, þegar ég skynjaði sama undirganginn og kvöldið áður. Skyndilega yfirgnæfði vindkviða önnur náttúruhljóð. Ég beið átekta, þar til hún gengi yfir, en það blés án afláts og Kári færðist frekar í aukana, ef eitthvað var. Klukkan var tæplega átta.

Þá heyrðust skellir frá tjaldinu hans Froggys, sem stóð þétt við mitt. Þegar ég leit út, sá ég að hann var að berjast um í tjaldhrúgunni og tókst að lokum að renna því opnu og stinga hausnum út.

„Þetta er alvöruleiðangur”, sagði hann glaðlega og skimaði í kringum sig með brosi á vör.

Hann hafði lagt alla áherzlu á að ferðast eins létt og kostur var. Því hafði hann enga tjaldhæla meðferðis, heldur batt stögin við steina. Annaðhvort höfðu þeir ekki verið nógu þungir eða stögin losnað á einhvern annan hátt.

Það lægði ekki á meðan við snæddum morgunverð. Við tíndum saman föggur okkar með erfiðismunum og héldum yfir söðul í jökulöldunni, sem við fylgdum síðan til vesturs. Ætlunin var enn þá að fara yfir leysingarkvíslarnar eins nálægt upptökum og hægt var. Það var mjög votlent sunnan öldunnar, jafnvel þar sem allt virtist þurrt á yfirborðinu var sökkvandi drulla eða holrúm undir. Við sukkum oft upp að hnjám. Þar sem Froggy fór út í fyrsta lækinn, sökk hann aftur og gat ekki annað en skutlað sér út á hlið upp á bakkann.

Litlu neðar komumst við yfir, þar sem annar lækur tók strax við. Sá virtist illvígari en hinn fyrri, þannig að við áttum engra annarra kosta völ en að elta straumstefnuna um stund gegnum annað skarð í jökulöldunni. Líklega var vatnið grynnra, þar sem það breiddi úr sér á söndunum hinum megin.

Við stauluðumst í gegnum skarðið og gættum þess að vera ekki of nálægt læknum, þar sem hætta var á að renna til ofan í hann. Hinum megin var útlitið litlu skárra. Þar sameinaðist honum annar lækur úr vestri, svo að straumhraðinn jókst um allan helming. Við neyddumst til að ganga í norðaustur í áttina að sandsléttunni miklu og fara aftur yfir fyrsta lækinn til austurs.

Ég var berfættur í blautum skónum og átti þá a.m.k. sokkana þurra í jakkavasanum. Félagi minn hafði hvorki fyrir því að fara úr sokkum né skóm. Það gerði hann aldrei, sagði hann. Honum leið ekki illa í bleytunni. Vinir hans höfðu gefið honum nafn með rentu.

Vindurinn blés áfram úr suðri og einu skýin, sem við sáum, voru bylgjuský yfir jökuljaðrinum.

Loksins fór árin að breiða úr sér og kvíslast. Það var heillaráð að ráðast til atlögu við hana á þessum slóðum og þræða kvíslarnar á milli sandbakkanna. Dr. Ashwell hafði einmitt mælt með slíku í bréfi sínu og lýst notkun reipis til tryggingar, þegar vaðið var yfir árnar. Þetta hafði ég ekki rætt við Froggy. Hvað, sem því leið, var það orðið of seint, því að hann var lagður af stað yfir og sandbakkarnir á milli kvíslanna voru of stuttir fyrir þann, sem var kominn yfir til að elta hinn, ef sá missti fótanna í sprænunum.

Reipisrúllan var því ónotuð á kerrunni. Froggy tók sér bambusstöng í hönd og öslaði af stað. Allt kom fyrir ekki, því að straumurinn var of stríður enn þá. Hann reyndi aftur neðar og ég elti, beindi kerrunni skáhallt upp í strauminn og hélt vel í hana til stuðnings. Sandurinn sópaðist stöðugt undan fótum okkar. Skyndilega tók straumurinn kerruna og sveiflaði henni til og ég dró í land.

Enn þá héldum við niður með ánni. Vindurinn, sem blés skáhallt frá hægri aftan á okkur, færðist í aukana og var að breytast í sandstorm framundan. Við nálguðumst hann óhjákvæmilega, þar sem við vorum í kví á milli hans og árinnar. Þetta var frábært myndefni, hugsaði ég. Enginn heima mundi trúa mér, nema ég sannaði mál mitt með ljósmynd. Þessi hugsun var ekki til enda runnin, þegar við lentum í sandstorminum og augnablikið var farið. Litla Rollei 35 myndavélin, sem Jean hafði lánað mér var áfram í innri vasanum á vindjakkanum. Það var ekkert vit í að taka hana upp við þessar aðstæður.

Áin breiddi nú enn frekar úr sér og við ákváðum að reyna eina ferðina enn þá.

Okkur miðaði hægt en örugglega. Froggy þrjózkaðist áfram yfir hverja kvíslina á fætur annarri og ég elti í hvert skipti, sem hann náði landi. Vindurinn ýtti aftan á okkur og vatnið þrýsti á fætur okkar frá vinstri. Vindurinn gnauðaði og straumhljóðið varð stöðugt háværara. Froggy var á leiðinni yfir næstu kvísl og vatnið náði honum næstum í hné. Hann óð samt styrkum fótum með stuðningi bambusstangarinnar. Ég vissi ekki, hvað ég gæti gert, ef hann missti fótanna og bærist með straumnum. Lengra framundan sást ógreinilega til síðasta bakkans vegna sandfoksins. Við vorum ekki komnir nema tæplega hálfa leið yfir.

Allt í einu tók ég eftir því, að sandrifið, sem ég stóð á minnkaði stöðugt. Vatnsflaumurinn var að aukast.

„Komdu til baka!” hrópaði ég. „Við komumst ekki yfir!”

Froggy leit upp en skildi hvorki upp né niður. Ég hélt áfram að hrópa og benti honum að koma.

Hann snéri rólega við og þreifaði fyrir sér að sandrifinu.

Kerran sveiflaðist til og frá í straumnum áður en við komumst á þurrt land aftur. Ég réði tæpast við hana, þótt ég héldi í hana með öllu afli.

Eina ferðina enn röltum við niður með ánni eins og við værum knúnir af eðlishvöt. Við gátum ekkert annað gert, nema að gefast upp við svo búið. Ég var eiginlega búinn að missa alla von um að komast nokkurn tíma yfir þennan þröskuld.

Svona til að undirstrika þá niðurstöðu, bættist ánni enn þá meira vatn frá austri, líklega áin, sem við fórum auðveldlega yfir kvöldið áður.

Gildran var lokuð. Við vorum fastir á sandtungu á milli ánna og drullunnar við jökulröndina.

Við snérum til suðurs og gengum álútir upp í vindinn og rykskýið án þess að hirða um að hella vatninu úr skónum okkar. Eina hugsunin, sem komst að, var að komast í skjól við stóru jökulölduna sem allra fyrst. Þegar við náðum þangað, fleygðum við okkur niður skammt frá síðasta tjaldstæði. Við vöfðum okkur inn í tjaldið hans Froggy og biðum af okkur sandrokið. Vindhraðinn var að mati Froggys a.m.k. 20 m á sekúndu.

Það var miklu minna en beið okkar daginn eftir, en við vissum ekkert um þá.

Það var enginn vafi á því, að Gunnar Einarsson, sem við hittum í Vesturdal, vissi hvað hann var að syngja, þegar hann messaði yfir okkur um jökulsárnar. Mig rámaði í, að fyrr á árinu hefði verið eitt leikhúsanna í Brussel sýnt leikrit, sem hét „Sjö aðferðir til að vaða ár“. Samkvæmt blaðaumsögnum var það ekki viðburður, sem ég hefði fórnað fríkvöldi til að sjá. Það var eitt þessa nútímaleikrita, sem hægt var að túlka á margan hátt eða láta ótúlkað. Liggjandi undir tjalddúknum, sem sandurinn barði að utan, velti ég fyrir mér, hverri hinna sjö aðferða höfundurinn hefði beitt í okkar sporum. Þetta voru nú ekki merkilegar vangaveltur en þær gerðu undanhald okkar léttbærara.

Það byrjaði að rigna um fimmleytið.

Það kom ekki til greina, að reisa tjald í þessi roki. Ytra tjaldið mitt var nóg til að halda okkur þurrum, svo að ég snaraðist úr pokanum og sótti það. Okkur tókst eftir langa mæðu að reisa það með aukastögum og fjölda steina. Tjaldi Froggys var komið fyrir undir því sem undirlagi undir svefnpokana, sem við skriðum strax ofan í.

Ég var varla búinn að koma mér fyrir í tvöfalda pokanum mínum, þegar dátinn var farinn að hrjóta. Fljótlega dró úr rigningunni, þar til hún hætti, en vindurinn magnaðist um allan helming. Skjóltjaldið hristist og skókst með miklum hvellum af og til, einkum af uppstreymi vindsins við jökulölduna. Mér leið illa að horfa á tjaldið þenjast út og falla saman á víxl en súlurnar högguðust ekki, þótt þær titruðu af átökunum. Þegar það fylltist af lofti, sogaðist sandur inn undir skarirnar og ég fór út við og við til að moka meiri sandi á þær og leit eftir stögunum, sem voru eins strengd og hörpustrengur.

Um áttaleytið um kvöldið lægði eins skyndilega og hvesst hafði tólf stundum áður.

Við ákváðum að fara eldsnemma á fætur morguninn eftir og komast yfir árnar, þegar þær væru vatnsminnstar.

Froggy sagðist ekki hafa sofið nógu vel vegna kulda kvöldið áður. Ég bauð honum vatnsþétta hlífðarpokann, sem ég hafði meðferðis til öryggis, ef tjaldið yrði fyrir skemmdum. Hann svaf eins og steinn þessa nótt. Hlífðarpokinn var rennblautur að innan vegna útgufunar, þegar hann vaknaði, en hann þornaði strax.

Ég hélt að það væri að bera í bakkafullan lækinn, að taka með sér tvo svefnpoka, einn mjög léttan með andadúni og annan þyngri, sem sonur minn lánaði mér. Nokkrum árum áður, þegar ég var á ferðinni í Ardennafjöllum, fannst mér dúnpokinn ekki nógu hlýr. Þetta var í oktober, hitinn var nærri 4 gráðum og vindurinn blés upp eftir fjallshlíðunum. Ég tjaldaði í myrkri og sá ekki fyrr en næsta morgun, að ég hafði skilið eftir mikið gaphús milli skjóltjaldsins og jarðar, þannig að tjaldið var mjög vel loftræst.

Hérna, við jökulræturnar, kom í ljós, að það borgaði sig að burðast með hlýjan viðlegubúnað til að halda sér þurrum og heitum við allar aðstæður. Það er sama, hve lítið menn vilja og reyna að bera í svona ferðum. Það verður að gera ráð fyrir því, að góður svefn er nauðsyn, ella halda menn ekki þreki og þrótti.

Gaumlisti fyrir göngufólk

 

Myndasafn

Í grennd

Hálendið, ferðast og fræðast
Þegar talað er um (Hálendið) miðhálendið, er yfirleitt miðað við landsvæði ofan 400 m hæðar yfir sjó. Þetta svæði nær yfir u.þ.b. 76% af flatarmáli la…
Landsvirkjun Ferðast og fræðast
Landsvirkjun ferðamennska og ferðaþjónusta. Ferðalög á miðhálendinu voru tíð á söguöld en síðan fór að draga úr þeim, þegar hjátrú magnaðist, og leng…
Nýidalur
Nýidalur er sunnan í Tungnafellsjökli með mynni mót vestri. Hann liggur í boga til suðurs og síðan til norðurs. Nýjadalsá er upphaf Fjórðungskvíslar. …
Ódáðahraun
Ódáðahraun er stærsta samfellda hraunbreiða landsins. Mörk þess eru Vatnajökull og Vonarskarð að     sunnan, Skjálfandafljót að vestan, Jökulsá á Fjöl…
Ódáðahraun í augum ferðamanna
ÍSLANDSFERÐ 1973 JOACHIM DORENBECK Glaugst er gest auga!! ÓDÁÐAHRAUN Ekki gleyma söguni !! Innskot Birgir Sumarliðason flugstjóri og um tíma …
Sprengisandur
Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns og vera staður, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komas…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )