Múli er fornt höfuðból, löngum prestssetur og kirkjustaður í Aðaldal. Eldra nafn bæjarins er Fellsmúli. Prestar sóttust eftir þessu tekjuháa og þægilega brauði. Heimajörðin var góð, margar kirkjujarðir, hjáleigur og ítök fylgdu.
Um aldamótin 1100 var þar Oddi Helgason (Stjörnu-Oddi), líklega einn mesti stjörnufræðingur þess tíma í heiminum. Hann uppgötvaði margt um gang himintuglanna og skráði athuganir sínar. Hann hafði samt lítil sem engin áhrif á þróun þessarar fræðigreinar vegna þess hve fjarri hann bjó frá öðrum stjörnufræðingum og rannsóknir hans urðu ekki kunnar fyrr en mörgum öldum síðar.
Jón Jónsson (1855-1912), alþingismaður í mörg ár, bjó í Múla. Sonur hans, Árni (1891-1947), var líka þingmaður og faðir Jóns Múla og Jónasar Árnasona. Jón Múli var kunnur fyrir rödd sína í útvarpinu um áratuga skeið, tónlist, lagasmíði o.fl. Jónas var þingmaður og í flestu eins listfengur og Jón. Jón lézt í apríl 2002. Jónas lést 5.4. 1998.