Mókollsdalur inn af Þrúðardal í Kollafirði heitir eftir Mókolli landnámsmanni á Felli, sem er sagður heygður í dalnum. Samkvæmt athugunum Olaviusar Olaviusar virtist leir úr Bleikjuholti vel til postulínsgerðar fallinn og var notaður til fatalitunar og til græðslu sára með góðum árangri fyrr á öldum. Ekkert varð úr hugmyndum um lagningu járnbrautar úr dalnum til leirflutninga en þó nokkuð var samt flutt á hestum og úr landi snemma á 20. öldinni.
Til er saga af bónda nokkrum, sem reyndi að drýgja smjör með leirnum, þegar hann átti að greiða afgjald jarðarskika sins og olli það málaferlum. Í dalnum hefur einnig fundizt surtarbrandur og steingerfingar plantna og skordýra. Nú er Bleikjuholtið friðlýst.