Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Möðruvallakirkja Hörgárdal

Möðruvallakirkja er í Möðruvallaprestakalli í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Möðruvellir eru bær, prestssetur, kirkjustaður og fyrrum klaustur í Hörgárdal. Möðruvallaklaustur var stofnað árið 1296 og þar sátu munkar af Ágústínusarreglu. Heimildir geta þess, að þar hafi smám saman orðið til merkasta bókasafn landsins á miðöldum. Klaustrið brann árið 1316 í tengslum við drykkjuveizlu bræðranna. Oft mun hafa verið sukksamt í klaustrinu og deilur voru uppi milli munkanna og Lárentíusar Kálfssonar, Hólabiskups. Þær gengu svo langt, að biskup lét taka klausturlyklana af munkunum og þrír þeirra voru settir í járn fyrir sakir, sem voru bornar á þá.

Útkirkjur prestakallsins eru í Glæsibæ, á Bakka og Bægisá. Standklædd timburkirkjan, sem nú stendur, var byggð á árunum 1865-67. Fyrri kirkja brann í marz 1865.

Núverandi kirkja er meðal veglegustu og vönduðustu kirkjum sinnar gerðar á landinu og hefur verið varðveitt í nánast upphaflegri mynd. Þorsteinn Danílesson á Skipalóni var kirkjusmiður og nafn hans og ártalið 1867er yfir dyrum kirkjunnar. Allstórt loft með hliðarstúkum er í henni. Á níutíu ára afmæli kirkjunnar var reist skrúðhús í suðurhorni í kór og þegar hún varð 110 ára komu klæddar setur í kirkjubekki og teppi í kór og ganggólf. Hún tekur u.þ.b. 250 manns í sæti. Loftið í kirkjunni er alsett stjörnum úr gipsi, líklega nálægt 2000 að tölu. Gluggar kirkjunnar, sex á hvorri hlið, eru stílhreinir og vekja athygli. Einn er yfir dyrum og allir eru þeir úr járni og í gotneskum stíl.

Allir munir gömlu kirkjunnar brunnu með henni nema altaristaflan, sem Arngrímur Gíslason, málari frá Skörðum í S-Þingeyjarsýslu, bjargaði og málaði eftir henni nokkrar töflur, s.s. í Stærra-Árskógskirkju. Frummyndin er glötuð, en til er mynd af kirkjubrunanum eftir Arngrím. Flestir gripir núverandi kirkju eru því á svipuðum aldri og hún sjálf og í sama stíl. Talið er að skírnarsárinn sé verk og gjöf kirkjusmiðsins. Í sánum er eirhúðuð skírnarskál. E.J. Lehman, danskur málari, málaði altaristöfluna 1866 (Upprisa Krists). Í kór kirkjunnar eru tveir stórir stólar og tíu minni, verk Einars Einarssonar, sem var þá djákni í Grímsey.

Merkustu bækur kirkjunnar eru Guðbrandsbiblía, prentuð á Hólum 1584 og Summaria, prentuð á Núpufelli árið 1589. Yfir sáluhliðinu í gamla kirkjugarðinum er vers úr 2. passíusálmi Hallgríms Péturssonar útskorið og málað á tréspjald: „Jurtagarður er herrans hér, helgra guðs barna legstaðir“ o.s.frv. Margt merkra manna og kvenna hvílir í þessum garði.

Myndasafn

Í grennd

Akureyri Innbærinn
Miðbærinn stendur á rótum Oddeyrarinnar, sem Akureyri dregur nafn af.  byggðist upp af framburði lækjar, sem rann um Búðargilið og var eign Stóra-Eyra…
Kirkjur á hringveginum
Kirkjur á Hringveginum á 6 Dögum Fyrstu árin eftir að hringvegurinn var opnaður (1974) kepptist fólk um að setja hraðamet eða aka aftur á bak allan h…
Kirkjur á Norðurlandi
Listi yfir flestar kirkjur í landshlutanum Akureyrarkirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )