Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Akureyri Innbærinn

Akureyri

Miðbærinn stendur á rótum Oddeyrarinnar, sem Akureyri dregur nafn af.  byggðist upp af framburði lækjar, sem rann um Búðargilið og var eign Stóra-Eyrarlands. Bærinn stóð, þar sem sjúkrahúsið er nú. Lítið Þórslíkneski fannst á þessum slóðum á 19. öldinni og skipar veglegan sess í Þjóðminjasafninu. Búðargilið dregur nafn af verzlununum, sem stóðu þar forðum og þarna hófst þróun byggðar á Akureyri. Laxdalshús við Hafnarstræti 11 er elzta hús bæjarins, frá 1795. Þar bjuggu kaupmenn og umboðsmenn þeirra næstum óslitið til 1933.

Við Laxdalshús stendur reynitré, sem spratt upp af eldra tré. Gamla tréð var tengt þjóðsögu frá katólskum tíma. Hún fjallar um systkini, sem voru tekin af lífi vegna sifjaspella. Þau héldu fram sakleysi sínu og báðu guð að sanna það með einhverjum hætti eftir dauða þeirra. Það gerðist þannig, að reynitré óx upp af blóði systkinanna, þar sem þau voru líflátin.

Fólk dýrkaði þetta tré, færði þar fórnir og kveikti þar á kertum við hátíðleg tækifæri. Eftir siðbótina var barizt fyrir tortímingu trjáa, sem fólk hafði dýrkað. Það reyndist ókleift að fella tréð, því það óx ævinlega á ný. Þetta tré er talið vera elzta reynitré á byggðu bóli á landinu. Öll gömlu húsin eiga sér sögu. Mörg bera nöfn danskra kaupmanna og annarra mektarmanna, s.s. Höephnershús, Túliníusarhús, Gudmans Minde og Laxdalshús. Íbúar Sibbukofa, Skaftahúss og Krákshúss voru af öðru sauðahúsi.

Aðalstræti 4, sem er kallað Gamla apótekið, var byggt 1859. Þar var lyfjaverzlun og íbúð lyfsalans. Þetta var reisulegt hús á sínum tíma og kostaði 10.000.- dali. Það var nýstárlegt í byggingarsögu landsins með verönd að austanverðu og útskornum gluggum og dyrum.

Aðalstræti 14, Gamli spítalinn, er meðal elztu tveggja hæða húsa á landinu. Það er líka kallað Gudmans Minde eftir kaupmanninum Friðrik C.M. Gudman. Hann gaf bæjaryfirvöldum húsið til nota sem spítali. Þar voru 8 rúm, læknisbústaður, þvottahús og líkhús auk baða, sem voru opin almenningi einu sinni í viku.

Aðalstræti 50 var prentsmiðja norður- og austuramtsins á tímabilinu 1853-1875. Björn Jónsson rak hana og gaf út tvö blöð, Norðra og Norðanfara. Jón Sigurðsson, forseti, útvegaði prentvélarnar, sem eru í norðurenda hússins. Matthías Jochumsson, þjóðskáld Íslendinga, bjó í húsinu á árunum 1887-1903.

Einn merkasti húseigandi í innbænum var Vilhelmína Lever. Hún var fyrst íslenzkra kvenna til að taka þátt í opinberum kosningum 1863. Hún var líka fyrst íslenzkra kvenna til að sækja um og fá lögskilnað árið 1824. Hún átti nokkur hús í innbænum og verzlun í Hafnarstræti. Líklega lét hún byggja Aðalstræti 52, þar sem hún var húsráðandi og rak veitingahús 1953.

Gróðursældin á Akureyri er víðkunn. Líklega eru hvergi fleiri reynitré í görðum annars staðar á landinu. Gróðurilmurinn á vorin, einkum síðla í júní á stilltum sumarnóttum, er einstakur og á haustin er litadýrðin ótrúleg. Gróður og garðar Akureyrar eiga sér rætur í Gömlu gróðrarstöðinni, þar sem nú er garður Minjasafnsins. Hún var stofnuð skömmu fyrir aldamótin 1900. Innar í fjörunni er önnur gömul gróðrarstöð, þar sem er merkilegt trjásafn. Þar hófst ræktunarstarfið árið 1903. Lystigarðurinn var opnaður árið 1912. Þar hófu akureyrskar konur ræktun tveimur arum áður.

Grófargil (Kaupvangsstræti; Listagil) var samastaður verksmiðja KEA. Sláturhús var hið fyrsta í röðinni, byggt 1907. Síðan kom mjólkurbú, Efnaverksmiðjan Sjöfn, Smjörlíkisgerðin Flóra o.fl. fyrirtæki. Neðar í gilinu voru hesthús og gistihúsið „Caroline Rest“, sem George H.F. Schrader byggði og nefndi eftir móður sinni. Þessi hús eru horfin. Schrader dvaldi á Akureyri 1912-1915, þegar atvinnuleysi og fátækt var mikil á Akureyri. Schrader veitti mörgum atvinnu og styrkti ýmiss konar líknarmál. Hann skrifaði bækur um verzlun og viðskipti og meðferð íslenzka hestsins.
Oddeyri er samkomu- og þingstaður frá fornu fari og er getið í Víga-Glúms- og Ljósvetninga sögum. Þar voru Jón Arason, biskup, og synir hans dæmdir landráðamenn og eignir þeirra gerðar upptækar til konungs að þeim látnum (1551)</strong>. Þarna voru bækistöðvar Gránufélagsins, sem hóf fyrstu verzlun Íslendinga frá Akureyri árið 1871. Verstöðvar og grútarbræðsla voru líka á Oddeyrinni. Lifur var brædd í stórum kötlum og ofnarnir kyntir með kolum. Grúarámur, sem námu meðalmanni í brjóst, voru allt um kring. Þær voru oft yfirfullar af lifur, þannig að lýsið rann um allt. Ódaunninn ætlaði alla að kæfa í bænum, ef vindátt var óhagstæð. Vinnan þar var óþrifaleg og illa launuð. Gránufélagið var fyrirrennari KEA, sem var stofnað 1886 á Grund í Eyjafirði. Opnun fyrstu sölubúðar KEA árið 1906 markar tímamót í sögu samvinnuhreyfingarinnar á landinu.

Myndasafn

Í grennd

Akureyri
Akureyri er stærsti kaupstaður landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi fallegi bær kúrir í fallegum  ramma innst í Eyjafirði vestanverðum og einhver…
Ferðast og Fræðast Norðurland Eystra
Norðurland Eystra Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Siglufirði til Raufarhafnar. Þéttbýlis- og merkisstaða og afþreyingar innan svæðisins er sér…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )