Mjóidalur teygist suður frá Bárðardal, langur og mjór, alla leið suður að Kiðagilsdrögum vestanverðum. Vegalengdin frá Mýri í Bárðardal að Ytrimosum á Mjóadal er u.þ.b. 20 km. Dalurinn er sæmilega gróinn nyrzt en uppblásturinn hefur yfirhöndina sunnar og olli því, að byggð lagðist af árið 1894.
Þar var búið á samnefndum bæ og þar átti Stephan G. Stephansson skáld heima áður en hann hélt til Vesturheims.
Mjóadalsá rennur til Skjálfandafljóts rétt sunnan Mýrar og var oft erfið yfirferðar áður en hún var brúuð 1977. Á leiðinni suður eða norður með Mjóadal leggja flestir lykkju á leið sína til að skoða Aldeyjarfoss og Kiðagil.