Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Lónsöræfi

Lónsöræfi

Öræfin eru austan Vatnajökuls og upp af Lóni bera þetta nafn. Þau ná frá Skyndidal í suðri að   Geldingafelli í norðri og Hofsjökli og Jökulgisltindi og Víðidalsdrögum í austri. Lónsöræfi eru mjög sundurskorin af giljum og gljúfrum, mikið er af ljósgrýti (ríólíti), þannig að landslagið er ákaflega litríkt. Líkt og víðar á Austfjörðum finnst þar mikið af holufyllingum og fallegum kristöllum. Víða er gróður talsverður, graslendi og blómskrúð. Oft sjást hreindýr á þessum slóðum. Jeppaleiðin liggur frá Þórisdal yfir Skyndidalsá að Eskifelli og síðan upp Kjarrdalsheiði (722m) og niður á Illakamb við Ölkeldugil.

Þar verður að grípa til postulanna og ganga yfir hengibrú á Jökulsá í Lóni. Lónsöræfi eru eitthvert fegursta og áhugaverðasta göngusvæði landsins og þar eru víða skálar til að gista í. Sumir ganga yfir Eyjabakka eða Eyjabakkajökul, ef kvíslar Jökulsár á Dal eru óvæðar, alla leið að Snæfelli, þar sem er skáli Ferðafélags Íslands. Á sumrin voru daglegar ferðir inn á Illakamb frá Höfn í Hornafirði.

Kollumúli (800-900m) er í Stafafellsfjöllum milli Víðidals og Jökulsár í Lóni. Hann er hlíðabrattur, flatur að ofan með smávötnum. Vestan hans eru Leiðartungur, þar sem var farið til Fljótsdalshéraðs, annaðhvort á Norðlingavaði eða í Kláfferju. Göngubrúin var byggð 1967. Eini leitarmannakofi landsins, sem var búinn ofni til hitunar árið 1930 var í Stóra -Hnausanesi. Flár eru austan í höfðanum. Þar eru grasbrekkur og skógarteigar. Þar uxu tvö reynitré og efst var grasatekja góð. Kollumúlaeldstöð er ein hinna fornu megineldstöðva Austurlands. Miðhluti hennar er í Víðibrekkuskerjum, austan Sauðhamarstinds. Þar lítur bergið út sem það sé sundursoðið.

Eftir stofnun þjóðgarðsins Vatnajökuls hinn 7. júní 2008 urðu Lónsöræfi ein miðstöðva þjóðgarðsvörslunnar.

Myndasafn

Í grennd

Gönguleið Snæfell – Lónsöræfi
Vegalengdir: Snæfell - Geithellnar um Geithellnadal = u.þ.b. 100 km; Snæfell - Þórisdalur um     Kjarrdalsheiði= u.þ.b. 80 km. Gönguleiðin frá Snæf…
Hálendið, ferðast og fræðast
Þegar talað er um (Hálendið) miðhálendið, er yfirleitt miðað við landsvæði ofan 400 m hæðar yfir sjó. Þetta svæði nær yfir u.þ.b. 76% af flatarmáli la…
Snæfell
Snæfell er hæsta staka fjall landsins, 1833 m yfir sjó. Það sést víða að og útsýnið af tindi þess er geysivítt á góðum degi. Það er nokkuð keilulaga, …
Vatnajökulsþjóðgarður
Vatnajökulsþjóðgarður / Skaftafell /Jökulsárgljúfur var stofnaður 7. júní 2008. Hann nær í upphafi yfir 12.000 ferkílómetra svæði (12% landsins) en mu…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )